„Groundhog day“ í réttarsalnum

Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Kaupþing
Björn Þorvaldsson saksóknari ásamt aðstoðarfólki. Kaupþing

Annar dagur réttarhalda í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings hefur verið eins og að hlusta á sömu söguna aftur og aftur, en saksóknari hefur notað allan daginn í að fara nákvæmlega yfir öll viðskipti ákærða, Péturs Kristins Guðmarssonar, einn dag í einu.

Spurningar saksóknara eru nokkuð áþekkar hvern dag og svör ákærða eru það líka. Þetta er því ekki ólíkt upplifun aðalsögupersónunnar í kvikmyndinni Groundhog day, sem upplifir sama daginn aftur og aftur.

Samþykki en með fyrirvara

Saksóknari tekur alla jafna fyrir nokkra daga í einu og spyr ákærða hvort hann samþykki þær tölur sem teknar hafa verið saman um hvern dag. Svör ákærða eru jafnan á þann veg að hann samþykki þær, en þó með fyrirvara um að hann telji tölur saksóknara ekki að fullu réttar, heldur hefur lagt fram eigin tölur sem sýni heildarupphæðirnar samkvæmt forsendum ákærða.

Ef einhver viðskipti áttu sér stað þann dag sem um ræðir sýnir saksóknari mynd úr Kauphallarherminum, en í honum sjást öll viðskipti með bréf Kaupþings yfir það tímabil sem tekið er fyrir.

Um er að ræða tímabilið 1. nóvember 2007 til 8. október 2008, eða tæplega eitt ár og því er heildarfjöldi viðskiptadaga vel á annað hundrað. 

Þegar farið hefur verið yfir nokkra daga er alla jafna hlustað á eitt til þrjú símtöl frá tímabilinu sem spurt hefur verið um á undan.

Saksóknari hefur tekið út valda kafla í hverju símtali og spyr ákærða út í hvað þar er átt við. Í flestum símtölunum er ákærði að ræða við samstarfsfélaga sína um hvort þeir eigi að selja eða kaupa, þótt það sé oft skreytt með tungutaki hlutabréfamarkaðarins, hvort sem talað er um að „pumpa“ bréfum á markaðinn, „spyrna við“.

Eðlileg mál gerð tortryggileg

Ákærði hefur ítrekað sagt að með spurningum sínum um slík mál sé saksóknari að gera eðlileg mál tortryggileg. Segir hann að um eðlileg viðskipti hafi verið að ræða þar sem hann hafi annað hvort haft trú á að bréf Kaupþings muni taka við sér eftir lækkunarhrinu eða að bréfin muni rísa enn frekar. Þarna hafi hann verið í hlutverki fjárfestis sem væri að reyna að græða fyrir deildina og því ekkert óeðlilegt við kaupin.

Þá hefur það komið fyrir að saksóknari spyrji út í orðanotkun ákærða þar sem ákærði segir ljóst að saksóknari sé fullkomlega að misskilja samhengið. Á það t.d. við þegar saksóknari spurði út í orð ákærða sem sagði „hvernig ertu í límingunum,“ við einn yfirmanna sinna. Benti ákærði á að þetta væri algeng orðanotkun í sínum vinahópi og hefði sömu þýðingu og „hvernig hefur þú það,“ eða „hvað segir þú.“

Í takt við annað í máli saksóknara

Hefur ákærði oft við slík tilfelli gagnrýnt framkomu saksóknara. „Mér finnst magnað að þú sért að reyna að gera þetta tortryggilegt,“ sagði hann í eitt skiptið og bætti við að sér þætti þetta vera í takt við annað sem hefði komið fram í máli saksóknara.

Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin kaupa Kaupþings ásamt verjendum. …
Pétur Kristinn Guðmarsson, fyrrverandi starfsmaður eigin kaupa Kaupþings ásamt verjendum. Kaupþing
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert