Tungutak bankageirans og verðbréfamiðlunar fær að njóta sín talsvert í réttarhöldum yfir Kaupþingsmönnum í héraðsdómi þessa dagana. Frasar eins og „halda stíft við gengið“, „þétta tilboðin“, „styrkja biddið“, „setja niður hælana“ og „er þéttur á kauphliðinni“ eru aðeins hluti þeirra sem notuð eru til að skýra framgang mála á því tímabili sem ákært er fyrir.
Í dag og gær hefur Pétur Kristinn Guðmarsson, fv. verðbréfamiðlari hjá eigin viðskiptum bankans, setið fyrir svörum. Spilað var símtal milli hans og Ingólfs Helgasonar, fv. forstjóra Kaupþings á Íslandi, þar sem Ingólfur segir Pétri til varðandi möguleg viðskipti dagsins. „Við skulum bara svona styðja nett við bankann eða svona, við skulum ekkert vera að kippa í hann,“ segir Ingólfur. Pétur svaraði þá: „nei nákvæmlega bara vera þéttir,“ og sagði Ingólfur: „já, já, það er ekki mjög credible.“
Aðspurður hvað þessi samskipti þýddu og sérstaklega að kippa ekki í hann, sagði Pétur að þarna væri hann að tala um að „kaupa ekki á askinu,“ eða að ganga ekki á sölutilboðin sem væru á markaði.
Saksóknari gekk þá nánar á hann og sagði að það virtist alltaf vera að þeir væru að ræða málin út frá genginu og ítrekaði hvað hann ætti við með að kippa í hann. Pétur var orðinn nokkuð pirraður á þessum ítrekuðu spurningum. „Kannski vill hann kippa í sjálfan sig, hvað veit ég.“