Kaupþing var kallaður dauði kötturinn af forstjóra félagsins á Íslandi, Ingólfi Helgasyni (IH). Þetta kom fram í símtali milli Ingólfs og verðbréfamiðlarans Péturs Kristins Guðmarssonar (PKG), sem spilað var í héraðsdómi í dag. Spurði Ingólfur miðlarann hvar ætti að loka kettinum og átti þar við í hvaða verði markaðurinn myndi loka. Símtalið er frá 24. janúar árið 2007.
IH: Hvað er að frétta af dauða kettinum?
PKG: (hlær) Hann er bara að lúra og mala.
Í seinna símtali halda þeir áfram að vísa til bankans sem kattar.
IH: Hvar ætlarðu að loka kettinum í dag?
PKG: Kettinum (hlær), við lokum örugglega í 700 í dag.
Í ákæru sérstaks saksóknara og við yfirheyrslu síðustu tvo daga hefur hann reynt að sýna fram á sekt Péturs í tengslum við meinta markaðsmisnotkun. Með spurningum sínum lét hann skína í að þarna væru þeir að reyna að handstýra gengi bankans.
Spurði saksóknari Pétur hvort ekki væri óeðlilegt að stefna að vissu gengi. Sagði Pétur að þarna væri hann bara til í að kaupa bréf á ákveðnu gengi við lok dags, en ekki að reyna að handstýra verðinu í þá átt.