Kraftaverk að bræðurnir lifðu

Bræðurnir Einar Árni (t.v.) og Hilmir Gauti (f.m) ásamt foreldrum …
Bræðurnir Einar Árni (t.v.) og Hilmir Gauti (f.m) ásamt foreldrum sínum þeim Bjarna Einarssyni og Hafdísi Jónsdóttur og systkinum sínum þeim Jóni Axeli og Kristjönu Júlíu. mbl.is/Rax

Bræðurnir Einar Árni og Hilmir Gauti Bjarnasynir eru sannkallaðir kraftaverkadrengir. Hinn 14. apríl síðastliðinn voru þeir nær drukknaðir í lækn­um við Reyk­dals­stíflu í Hafnar­f­irði, og tvísýnt var um líf þeirra. Í dag, aðeins viku eftir slysið, eru þeir hins vegar hinir hressustu og skarta sínum breiðustu brosum þegar blaðamann mbl.is ber að garði á Barnaspítala Hringsins. Þar hlaupa þeir um gangana og er nánast ómögulegt að greina að þeir hafi verið í lífshættu fyrir aðeins fáeinum dögum.

„Við hefðum aldrei þorað að vona að svona vel færi. Þetta er í raun kraftaverk,“ segir Bjarni Einarsson, faðir drengjanna, þegar hann sest niður með blaðamanni mbl.is. Aðeins fjórir dagar eru síðan Hilmir Gauti, sem er 9 ára gamall, vaknaði en honum hafði verið haldið sofandi í öndunarvél fram að því. Einar Árni, sem er 12 ára, var einnig hætt kominn en komst þó fljótt til meðvitundar. 

Voru í páskafríi í bænum

Fjölskyldan hefur búið á Tálknafirði í fimm ár, en þau eru upprunalega frá Suðurnesjunum. Þau höfðu verið í páskafríi í bænum dagana fyrir slysið, og þegar því lauk og Bjarni þurfti að halda aftur til Tálknafjarðar ákvað eiginkona hans, Hafdís Jónsdóttir, að vera eftir með börnin í nokkra daga í viðbót.

Bræðurnir höfðu farið út að leika sér með Kristjönu Júlíu systur sinni, sem er 11 ára, þegar slysið varð. Þeir höfðu þá verið að reyna að ná bolta sem hafði farið í lækinn við stífl­una þegar þeir lentu í vatn­inu. Kristjana Júlía hringdi í móður þeirra sem hafði samband við Neyðarlín­una. Í kjölfarið fékk Bjarni örlagaríkasta símtal lífs síns. 

Hélt að báðir synirnir hefðu drukknað

„Konan mín hringir í mig og segir mér að þeir séu báðir drukknaðir. Það eru fyrstu upplýsingarnar sem ég fæ. Hún stendur yfir þeim og segir mér í raun að þeir séu dánir. Það var gríðarlega erfitt,“ segir Bjarni. Fljótlega fóru þó að berast skýrari upplýsingar og í ljós kom að eldri drengurinn væri á lífi og andaði sjálfur. „Það var strax mikill léttir,“ segir Bjarni.

Hann lagði um leið af stað að vestan þaðan sem hann fékk far með lögreglu, og segir hann bílferðina hafa verið gríðarlega erfiða. Hann hafi upplifað sig varnarlausan þar sem hann var ekki á svæðinu, og áfallið hafi verið gríðarlegt. Þegar hann kom til Reykjavíkur var Einar Árni kominn til meðvitundar, en þá tók við biðtími þar sem Hilmi Gauta var haldið sofandi. 

Gríðarlegur léttir þegar hann vaknaði 

Bjarni segir það strax hafa verið mikinn létti þegar í ljós kom að hjarta Hilmis Gauta sló, og hann þurfti ekki að fara í hjarta- og lungnavél eins og margir sem hafa lent í hjartastoppi. Þá náði hann fljótlega upp góðum blóðþrýstingi og á meðan á sérhæfðri kælimeðferð stóð sló hjarta hans án stuðnings. „Hann er mikill orkubolti þessi strákur og það er ekki oft eða nánast  aldrei sem maður hefur lofað guð fyrir alla þessa orku sem hann hefur. Það höfum við hins vegar gert núna því hún kom sér afar vel,“ segir hann.

Með kælimeðferðinni sem beitt var er hægt að draga veru­lega úr lík­um á heilaskaða, en Bjarni segir þó mikla óvissu hafa ríkt um það hvernig Hilmir Gauti kæmi undan slysinu. Þegar kælingunni var hætt og svæfingin tekin úr sambandi hafi fjölskyldan hreinlega þurft að sitja og bíða viðbragða. „Þessi vakning var ekki bara það að kveikja á einum takka. Maður vissi það að þótt hann myndi vakna þá væri ekkert ljóst hvað yrði og hvort hann væri skaðaður,“ útskýrir hann og heldur áfram: „en það var gríðarlegur léttir að sjá hann ranka við sér“.

Afar þungbært fyrir börnin

Bjarni segir Hilmi Gauta fljótlega hafa farið að svara öllu því sem hann var spurður að, en hann sé þó ekki farinn að tala mikið ennþá og sé enn frekar þróttlítill. „En við sjáum dagamun og nánast klukkutímamun á honum og það er ekki að merkja neinn skaða á þessu stigi,“ segir Bjarni. „Við hefðum aldrei þorað að vona þetta.“

Hilmir Gauti man þó ekkert eftir deginum sem slysið varð, og óljóst er hvort minningarnar um atvikið muni koma aftur. Einar Árni og Kristjana Júlía muna hins vegar vel eftir því sem gerðist að sögn Bjarna. „Þetta er fast í þeirra minni og hefur verið þeim afar þungbært,“ segir hann.

Brýna fyrir fólki að skoða nærumhverfi sitt

Líkt og fram hef­ur komið var mjög mik­ill vatns­straum­ur í stífl­unni vegna leys­inga. Þegar Hilmir Gauti féll í renn­una tók hann að sökkva og hring­sner­ist í hyl sem er neðst í renn­unni, en ár­far­veg­ur­inn í renn­unni myndaði hringiðu í hyln­um, ásamt því að gróður á botn­in­um gerði það að verk­um að fót­festa var lít­il sem eng­in. Stuttu síðar datt Einar Árni einnig ofan í læk­inn en hann féll ofan í við að reyna að bjarga litla bróður sín­um.

Læk­ur­inn er því mik­il slysa­gildra en líkt og fram hef­ur komið í frétt­um hafa bæj­ar­yf­ir­völd í Hafnar­f­irði brugðist við og gert ráðstaf­an­ir til að koma í veg fyr­ir að slys sem þetta komi fyr­ir aft­ur. Bjarni segir fjölskylduna vilja brýna það fyrir fólki að líta nærri sér og skoða betur hvort einhvers konar hættur sé að finna í nærumhverfinu. „Það kom okkur svo á óvart að þessi hætta skyldi leynast þarna á þessum fjölfarna stað. Við hvetjum bæði fólk og stjórnvöld að endurskoða þessi mál.“

Þakklát fyrir skjót viðbrögð

Mikil mildi er að ekki fór verr þegar bræðurnir féllu í vatnið og er þar er ekki síst að þakka skjótum viðbrögðum þeirra sem fyrstir voru á vettvang. Meðal þeirra var Eva Röver, nem­andi í Lækj­ar­skóla, sem hjálpaði Hafdísi móður drengjanna að ná Einari Árna á land, og maður um þrítugt sem féll sjálfur ofan í lækinn þegar hann reyndi að bjarga Hilmi Gauta. Í þeim hópi var einnig lögreglumaður sem tókst að ná Hilmi Gauta upp úr hylnum eftir að hafa fest sig þar sjálfur. 

Bjarni segir fjölskylduna innilega þakkláta fyrir þessi skjótu viðbrögð, en auk þess hafi viðbrögð annarra björgunaraðila, starfsfólks Landspítalans, lögreglunnar og annarra sem komu að fyrstu hjálp verið gríðarlega góð. „Eins og fram kom í lögregluskýrslunni þá gekk allt upp og við erum gríðarlega þakklát fyrir það,“ segir hann.

Hefur gríðarleg áhrif á allt lífið

Slysið vakti mikinn óhug hjá þjóðinni, og sýndu margir stuðning sinn við fjölskylduna í verki. Bjarni segir þennan stuðning ómetanlegan. „Við höfum fundið stuðning alls staðar að af landinu. Við erum með mjög stórt tengslanet og það hefur verið mikill styrkur og hugur til okkar hvaðan sem er í heiminum í raun og veru; fólk hefur komið hingað heim frá Noregi og Spáni til að styðja okkur og þetta hefur snert mjög marga.“

Þá segir Bjarni áfall líkt og þetta hafa gríðarleg áhrif á lífið, og hann finni þegar breytingu á sínu eigin viðhorfi. „Þó að maður hafi oft heyrt að fólk hafi breyst eftir að lenda í áföllum er öðruvísi að ganga í gegnum það sjálfur. Maður byrjar að pæla minna í veraldlegum hlutum og horfir inn á við og fer að meta það sem virkilega skiptir máli. Það er nákvæmlega það sem ég er að upplifa.“

Fjölskyldan vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem hafa hjálpað þeim að ná bata eftir slysið í læknum; björgunaraðilum, starfsfólki Landspítalans, lögreglunni og öðrum sem komu að fyrstu hjálp. „Maður getur aldrei þakkað nógu oft fyrir þetta. Það er hægt að læra ýmislegt, en þessi mannlegi þáttur er framúrskarandi, til dæmis hérna á Landspítalanum,“ segir hann og bætir við að fjölskyldan hlakki til að komast heim til sín og takast á við áfallið í sameiningu.

Bræðurnir með foreldrum sínum.
Bræðurnir með foreldrum sínum. mbl.is/Rax
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði.
Frá björgunaraðgerðum í Reykjadalsstíflu í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn
Fjölskyldan er afar þakklát starfsfólki Landspítalans.
Fjölskyldan er afar þakklát starfsfólki Landspítalans. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert