„Lékum okkur í svona sem krakkar“

Lögreglumennirnir Guðmundur Viðar Berg (t.v.) og Halldór Sigurbergur Sveinsson (t.h.) …
Lögreglumennirnir Guðmundur Viðar Berg (t.v.) og Halldór Sigurbergur Sveinsson (t.h.) í Kastljósi kvöldsins. Skjáskot/Kastljós

„Við vorum eftir okkur. Við eigum báðir börn og lékum okkur báðir í einhverju svona sem krakkar,“ segja lögreglumennirnir Guðmundur Viðar Berg og Halldór Sigurbergur Sveinsson sem unnu mikið þrekvirki þegar þeir björguðu hinum níu ára gamla Hilmi Gauta Bjarnasyni og 25 ára gömlum vegfaranda frá drukknun við Reykdalsstíflu í Læknum í Hafnarfirði á þriðjudaginn í síðustu viku.

Í Kastljósi kvöldsins var rætt við lögreglumennina tvo um hvernig það hefði verið að koma að slysinu. Halldór segist oft hafa labbað framhjá stíflunni áður en slysið varð, en að sér hafi aldrei dottið í hug hversu hættuleg hún gæti reynst.

Frétt mbl.is: Kraftaverk að bræðurnir lifðu

„Þegar við komum á staðinn þá er töluvert panikk í gangi og það er verið að draga eldri drenginn upp á bakkann,“ segir Guðmundur en að þeirra sögn virtist drengurinn þá með lítil lífsmörk, en betur fór en á horfðist með hann, segja þeir.

Þeir eru þá látnir vita af því að fleiri séu í hylnum og hlupu þeir því strax út í brekkuna þar sem þeir sáu strákinn veltast um. Halldór reyndi að teygja sig í hann en við það rann hann út í. „Ég réð ekki neitt við neitt. Þetta er eins og að lenda í þvottavél,“ segir Halldór.

Halldór náði í hönd vegfarandans og dró hann upp úr hylnum. Sá var alveg örmagna og búinn að gefast upp, að sögn lögreglumannanna. Stuttu síðar náði Halldór taki á Hilmi Gauta, rétti Guðmundi hann sem dró drenginn á þurrt.

Það tók tíma fyrir Halldór að ná áttum eftir að hann komst upp úr hylnum og segir hann það ósennilegt að hann hefði getað komist upp úr hylnum upp á eigin spýtur. Þeir segja að það hafi svo ekki verið fyrr en drengurinn var kominn upp á Landspítala að þeir fréttu af því að hjartað í honum hefði farið að slá. Fram að því vissu þeir ekkert hvað yrði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert