Sýknudómur yfir fyrrverandi stjórnendum og eigendum Glitnis í Aurum-málinu svonefnda var ómerktur í Hæstarétti í dag. Féllst rétturinn á að meðdómandi í Héraðsdómi Reykjavíkur hafi verið vanhæfur vegna tengsla við sakborning í Al Thani-málinu. Málið verður því í aftur tekið fyrir í héraðsdómi.
Jón Ásgeir Jóhannesson, Lárus Welding, Bjarni Jóhannesson og Magnús Arnar Arngrímsson voru á síðasta ári sýknaðir í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu en saksóknari krafðist þess að Hæstiréttur ómerkti dóminn vegna vanhæfis meðdómanda. Meðdómandinn, Sverrir Ólafsson, er bróðir athafnamannsins Ólafs Ólafssonar sem var sakfelldur í Al Thani-málinu í mars.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ummæli Sverris í fjölmiðlum eftir að dómur héraðsdóms féll gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdóms. Ummæli Sverris voru eftirfarandi:
„Ég trúi ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingafullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
Í þessu ljósi taldi Hæstiréttur að ómerkja yrði dóm Héraðsdóms Reykjavíkur ásamt meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar. Vísaði hann því aftur til Héraðsdóms Reykjavíkur til meðferðar.
Ákæra sérstaks saksóknara snýst um félagið Aurum Holdings Limited sem áður hét Goldsmiths, Mappin & Wepp og WOS. Í málinu voru ákærðir þeir Lárus, Jón Ásgeir, Magnús Arnar og Bjarni fyrir umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aurum Holdings Limited.
Sérstakur saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi og fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri, Magnúsi Arnari og Bjarna. Magnús Arnar gegndi starfi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Glitnis og Bjarni var viðskiptastjóri sama banka. Lárus er fyrrverandi forstjóri Glitnis banka og Jón Ásgeir einn aðaleigandi bankans.