„Þetta var ömurlegur vetur“

Skjáskot af nullschool.net

„Þetta var ömurlegur vetur,“ er setning sem víða heyrist þessa dagana enda ekki skrýtið, menn muna ekki annað eins. Útköll björgunarsveita eru tvöfalt fleiri í vetur en veturinn á undan og Vegagerðin, líkt og mörg sveitarfélög, standa frammi fyrir gríðarlegum kostnaði vegna veðráttunnar í vetur.

Vetrarþjónusta er hjá Vegagerðinni allan sólarhringinn frá því í október fram í apríl og í húsnæði Vegagerðarinnar í Hafnarfirði og Ísafirði er fylgst með veðri, færð og öllu sem til þarf til þess að sinna þessu eftirliti. Vetrareftirlitinu á að vera lokið í vetur en vegna veðurútlits nú um helgina hefur aukavöktum verið bætt á. Ekki sé annað hægt enda minnir spáin lítt á sumar þó svo almannakið segi annað.

4,4 sinnum til tunglsins í vetur

Snjómoksturstæki í vinnu fyrir Vegagerðina fóru vegalengd í vetur sem jafngildir því að hafa farið 4,4 sinnum til tunglsins. Veturinn var einn sá erfiðasti í vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni og þurfti að sinna þjónustu mokstri eða hálkuvörnum upp á hvern einasta dag. Venjulega vetur koma dagar þar sem ekki þarf að senda út bíl nema í eftirlit. En því var ekki að heilsa í vetur.

Áætla má að á  landinu öllu hafi   snjómoksturstækin ekið um 1.690.000 km, og notað 19.400 tonn af salti (salt í pækli og sandi meðtalið), 6.000 rúmmetrar af pækli og 13.000 tonn af sandi.

Á landinu öllu voru þjónustudagarnir 212 sem eru allir dagarnir á tímabilinu eða 100 prósent. Það þurfti því að þjónusta vegakerfið upp á hvern einasta dag, einhversstaðar sem er óvenjuleg staða, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Mikið álag á starfsfólk Vegagerðarinnar og verktaka

Kostnaðurinn við þetta var að meðaltali um 9,2 milljónir króna við snjómoksturinn einan. Þannig að segja má að kostnaðurinn hafi verið tvær rúmgóðar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu í hverri einustu viku í allan vetur.

Þetta er meðaltalskostnaðurinn á dag, en erfiðustu dagana í vetur hefur kostnaðurinn á dag við snjómoksturinn á landinu öllu farið upp 22 – 25 milljónir króna.  Jóhann B. Skúlason,  yfirverkstjóri í þjónustustöð Vegagerðarinnar í Hafnarfirði, segir að mikið hafi reynt á starfsfólk. Þetta sé hins vegar alls ekki búið því víða þarf að bæta fyrir tjón vetrarins, svo sem á vegriðum, skiltum og síðast en ekki síst á götum sem eru holóttar sem aldrei fyrr.

Mesti kostnaðurinn tengist Reykjanesbraut, Hellisheiði, Þrengslum og Suðurlandsvegi að Rauðavatni. Að sögn Jóhanns þurfti meira að segja að loka Reykjanesbrautinni þrisvar í vetur en þar var óvenjuhvasst og um leið kalt. 

Það má eiginlega segja að orð sem voru ekki áður hluti af hefðbundinni orðræðu; svo sem aftakaveður, afspyrnurok, stórviðri, stormbelgingur, sló oft fyrir af öllum áttum og svo mætti lengi telja, yrðu hluti af daglegri umræðu. Minna var hins vegar um að orðið dauðalogn væri notað í veðurfréttum vetrar. Bræla kom ítrekað fyrir í samtölum blaðamanns við starfsmenn vaktstöð siglinga hjá Landhelgisgæslunni enda veturinn ansi erfiður íslenskum sjómönnum.

Snemma árs 2014 gerðu Vegagerðin samkomulag við björgunarsveitir innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem eru staðsettar við helstu farartálma að vetrarlagi.

Vegagerðin fékk björgunarsveitir til liðs við sig að manna lokunarpósta við rætur torfærari heiða til að koma í veg fyrir að ferðalangar lentu í vandræðum þegar ljóst væri að heiðin myndi lokast vegna fannfergis, hálku eða ofsaveðurs.

Skilgreind voru tvö stig lokana annars vegar svokölluð mjúk lokun þar sem björgunarsveitir væru til staðar á lokunarpóstum og gætu gefið vegfarendum upplýsingar um yfirvofandi veður og einnig bent þeim á ef farartækin væru vanbúin til vetraraksturs.

Hins vegar var björgunarsveitum falið að manna lokunarhlið þegar ljóst væri að heiðar væru orðnar ófærar. Vegagerðin greiðir björgunarsveitum fyrir þessi lokunarverkefni. Mat Slysavarnafélagsins Landsbjargar er að samvinnuverkefni Vegagerðarinnar og félagins hafi verið afar vel heppnað og dregið úr óþarfa útköllum og að sama skapi aukið þjónustu við vegfarendur.

Þó svo að mörgum sé ofarlega í huga að veturinn hafi verið erfiður þá hafa íbúar á Norður- og Austurlandi sloppið mun betur frá vetrinum en íbúar annarra landshluta og ekki algengt að Hellisheiði sé oftar lokað en Víkurskarði yfir vetrartímann líkt og var í vetur.

Ballið byrjaði þann 30. nóvember

Veðrið var þokkalegt fyrsta mánuð vetrar en í lok nóvember hófst harðindakafli sem stóð yfir fram yfir áramót.

Þann 30. nóvember skall á aftakaveður, öllu flugi var aflýst innanlands og hluta millilandaflugs. Allar samgöngur á landinu riðluðust og björgunarsveitir stóðu í ströngu við að bjarga því sem bjargað var. Allt fauk sem fokið gat að sögn björgunarsveitarmanna. Þakplötur og jafnvel þök í heilu lagi. Mikið var um brotna glugga og hurðir sem höfðu fokið upp, skúrar fuku, klæðningar losnuðu, sólpallar og girðingar fóru af stað og tré sem jólatré féllu.

„Þann 30. nóvember byrjuðu lætin og stóðu linnulítið til 14. apríl,“ segir Jóhann. Þetta var ekki bara slæmt veður í vetur heldur var þetta líka leiðinlegt veður segir hann. „Mikið hvassviðri, ofankoma og skafrenningur. Svo kom slydda á milli og þíða en ekki samt það gott að það þyrfti ekki að fara út. Þetta var mikið álag á bílstjórana hjá verktökunum sem og tæki þeirra,“ segir Jóhann.

Veturinn, frá fyrsta vetrardegi 25. október 2014 til síðasta vetrardags, 22. apríl 2015, var ívið kaldari um landið sunnan- og vestanvert heldur en að meðaltali síðustu tíu ár, en hins vegar yfir því norðaustanlands, segir í yfirliti sem Trausti Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, tók saman fyrir mbl.is.

Allar útgáfur af veðurfari

Líkt og Jóhann segir þá hafa sést allar útgáfur af veðurfari undanfarna mánði eða eins eins og einn veðurfræðingur orðaði það svo ágætlega þegar hann var spurður um jafnfallin snjó í vetur: Það var nú ekki mikið um að snjór væri jafnfallinn svo mikill var vindurinn.

Í Reykjavík hefur vetrarþjónustan kostað borgaryfirvöld tæplega 700 milljónir króna í vetur sem er 200 milljón króna hærri fjárhæð heldur en veturinn á undan.

Björn Ingvarsson, deild­ar­stjóri þjón­ustumiðstöðvar Reykja­vík­ur­borg­ar, tekur undir með þeim sem kvarta yfir vetrinum enda hefur mikið álag verið á starfsmönnum borgarinnar sem sinna snjóruðningi og hálkueyðingu í vetur.

„Versti mánuðurinn var desember. Hann var hræðilegur. Þá vorum við alla daga að. Þetta var ekki alveg jafn slæmt eftir áramót en samt annasamir,“ segir Björn.

Mesta vindhviðan 73,5 metrar á sekúndu

Að sögn Trausta Jónssonar, veðurfræðings, var meðalhitinn 1,3 stig í Reykjavík sem er 0,7 gráðum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990, en 0,4 gáðum undir meðallagi síðustu tíu ára. Vetrarhitinn nú er sá sami og var veturinn 2010 til 2011 og 2007 og 2008. Á Akureyri var meðalhiti vetrarins +0,7 stig. Það er 1,7 stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,4 stigum ofan meðalhita síðustu tíu ára. Síðustu tíu árin hefur veturinn aðeins einu sinni verið hlýrri en nú, það var 2012, en jafnhlýtt var á Akureyri í fyrravetur og nú, segir Trausti.

Mesta frost sem mældist á landinu í vetur var 26 stig sem mældist við Setur sunnan Hofsjökuls þann 11. janúar. Mest frost í byggð mældist í Svartárkoti 21. febrúar 24,1 stig.
  Mest frost í Reykjavík mældist 9,6 stig, þann 3. febrúar. Það er sjaldan sem vetrarlágmarkshitinn hefur verið svona hár. Mesta frost á Akureyri í vetur mældist 14 stig. Það gerðist 22. febrúar. Mesta frostið sem mældist á Ísafirði var 11,5 stig, það var 12. febrúar og á Egilsstöðum mældist mest frost 18,8 stig þann 19. janúar.

Mesti vindhraði vetrarins (10-mínútna meðaltal) mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 22. febrúar, 46,3 m/s. Mesta vindhviða mældist við Miðfitjahól á Skarðsheiði 14. mars, 73,5 m/s.
  Veðrið 14. mars var það versta í vetur hvað vind áhrærir en þann dag mældist fárviðri á mörgum stöðvum í byggð en það er óvenjulegt, segir Trausti.

Vindakortin oft æði skrautleg

Teitur Arason, veðurfræðingur, tekur undir þetta að veðurofsinn þennan dag eigi sér vart hliðstæðu en mikið hefur mætt á vakthafandi veðurfræðingum á Veðurstofu Íslands í dag. Hafa vindakort verið skrautlegri en áður hefur þekkst og örvar vísað í allar átti, jafnvel á sama kortinu. 

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir álagið á neyðarlínu og björgunarsveitir hafa verið einkar mikið.

„Þetta var með verri veðrum sem maður hefur séð í mörg ár. Það sem var líka sérstakt fyrir okkur í þessu var sá fjöldi sem hringdi með tilkynningar um vandamál. Eins og þekkt er orðið náðist víða ekki samband. Það var því mikill lærdómur sem skapaðist í gær sem við þurfum að nýta vel. Það eru allir hérna sammála um það að fara vel yfir þessi mál og reyna hvað við getum til þess að bæta kerfið svo þetta gerist ekki aftur. Það er náttúrlega nánast ómögulegt að prófa kerfið öðruvísi en í svona raunaðstæðum. Við höfðum oft velt því fyrir okkur hvernig það yrði ef svona gríðarlegt álag skapaðist. Þetta gaf okkur því tækifæri til þess að skoða það vel,“ segir hann en fram að hádegi þennan dag svörðu starfsmenn Neyðarlínunnar 1.400 símtölum. Fjölmargir náðu ekki í gegn slíkt var álagið.

Feðgarnir Marinó Tryggvason og Jón Þór Marinósson í Hvítanesi í Hvalfjarðarsveit urðu fyrir því óveðrinu laugardaginn 14. mars að hlaða og fjós hrundu í óveðrinu ofan á þá og kálfa í fjósinu.

„Við komum kálfunum úr hlöðunni og inn í fjósið en þá féll hlöðugaflinn inn í fjósið og ofan á okkur og kálfana,“ segir Jón Þór.

„Við feðgar sluppum með skrámur. Við vorum komnir í einskonar sjálfheldu en náðum að redda okkur þarna út á traktor,“ segir hann en í ljós kom að einn kálfurinn hafði orðið undir gaflinum og drepist.

Mosfellsbær fór nánast á flot og tré rifnuðu upp með rótum víða um land. Tjónið hleypur á tugum milljóna og líkt og oft er þá fæst ekki allt bætt. 

1.826 útköll hjá björgunarsveitunum

Líkt og sést í kortinu sem fylgir með hefur þurft að loka Hellisheiði óvenju oft í vetur og Klettsháls hefur verið ítrekað lokað, líkt og fleiri fjallvegir á landinu. 

Aðgerðum björgunarsveita hefur fjölgað mikið sé borið sama við síðasta vetur. Björgunarsveit var kölluð út í vetur í 1.826 skipti samanborið við 972 skipti í fyrra. Mikið af þessari aukningu má rekja til rysjóttrar tíðar, fjölfarnir fjallvegir hafa verið erfiðir og þarf lítið að bregða útaf til að slæmt ástand skapist, samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg. Dæmi sem sýnir vel aukningu verkefna er að í fyrravetur voru fjórar sveitir sem fóru í fleiri en 20 útköll en í ár eru þær orðnar 32.

Um helmingur útkalla tengd ófærð og óveðursaðstoð

Tryggvi Hjörtur Oddsson, fulltrúi í svæðisstjórn björgunarsveita í Árnessýslu og formaður Björgunarfélags Árborgar, segir dæmi um að einhverjar björgunarsveitir í Árnessýslu hafi sinnt hátt í fimmtíu útköllum síðan 1. september og má reikna með að um það bil helmingur þeirra verkefna hafi verið tengdur ófærð og óveðursaðstoð. Það mæðir auðvitað mest á þeim sveitum sem eru næst Hellisheiðinni, Þrengslunum og Lyngdalsheiði og aðrar sveitir í sýslunni koma þeim til aðstoðar þegar þörf krefur, segir Tryggvi.

Að sögn Tryggva eru erfiðustu og um leið minnisstæðastir þeir dagar þar sem flestum leiðum til Reykjavíkur hefur verið lokað, s.s. Hellisheiði, Þrengslum, Lyngdalsheiði og Mosfellsheiði. Þetta kallar á mikinn viðbúnað hjá björgunarsveitum og eru jafnvel 50-60 manns að sinna verkefnum á þessu svæði eingöngu tengt ófærð og ferðalangarnir sem ekki komast leiðar sinnar eru fleiri hundruð.

Að sögn Jóhanns hjá Vegagerðinni annast björgunarsveitir lokun heiða eins og Hellisheiði og Þrengsla en víðtækt samráð er haft þegar kemur að því að loka leiðum. Það sé frekar lokað fyrr en seinna því ef snjóruðningsmenn, sem þekkja hvern stein og hvern skafl á heiðinni telja nánast ógerlegt að halda heiðinni opinni án þess að leggja fólk í hættu, þá sé glórulaust að senda ferðalanga af stað. 

Fátt annað hægt að gera en bíða

Tryggvi segir að fólk bregðist yfirleitt vel við. „Það vita flestir að það er fátt hægt að gera við ástandi sem þessu nema að bíða. Helst kemur þetta ferðamönnum sem eru á eigin vegum í opna skjöldu en yfirleitt næst að leysa úr því. Oftast nær hefur Suðurstrandarvegurinn verið opinn og þokkalega greiðfær svo þeir sem virkilega hafa þurft að komast hafa getað lagt á hann,“ segir Tryggi en  bætir við að auðvitað séu dæmi um að fólk hundsi slæma spá og viðvaranir frá Vegagerðinni. 

 „Það sem að hefur breyst í vetur er að Vegagerðin er að taka ákvarðanir fyrr um að loka t.d. Hellisheiði og Þrengslum og það skilar sér í því að björgunarsveitirnar eiga auðveldara með að greiða úr þeim flækjum sem myndast hafa á vegunum sem skilar sér í því að hægt er að opna fyrr aftur auk þess að minni tími fer hjá björgunarsveitunum í útköllin.

Það sem að veldur okkur hinsvegar áhyggjum er sú staðreynd að það er alltaf einn og einn sem virðir ekki lokanir þrátt fyrir að lokanir séu tilkynntar á upplýsingaskiltum, með lokunarslám og jafnvel bíl við lokunarpóstinn og leggur á lokaða vegi.

Skýring ökumanna er oft á tíðum sú að þeir treysti sér alveg til þess að keyra yfir án þess að lenda í vandræðum, þeir séu á jeppa eða vanir ökumenn.

Hinsvegar er það svo að oftar en ekki er það skyggnið sem er að valda því að loka þarf vegunum og eru dæmi um það að björgunarsveitamenn hafi ekki séð fram fyrir húddið á bílum sínum í þessum útköllum.

Það veldur okkur talsverðum áhyggjum að lokanir séu ekki virtar í ljósi þess að lokanirnar eru líka mikilvægur öryggisþáttur fyrir þá sem eru við störf á t.d Hellisheiði við að ferja fólk úr bílum og losa fasta bíla. Með því að loka veginum á meðan t.d. björgunarsveitir og starfsfólk Vegagerðarinnar er við störf sín er búið að lágmarka hættuna á því að ökumaður sem annars hefði lagt á veginn verði þeirra sem eru við störf á heiðinni ekki var og aki á þá eða kyrrstæð ökutæki og valdi með því mögulega stórtjóni. 

Það er því mikilvægt að ökumenn hafi það í huga þegar að vegunum er lokað að það er ekki eingöngu gert vegna ófærðar á veginum, heldur líka bæði vegna þess að skyggni getur verið gríðarlega slæmt og einnig til að tryggja öryggi almennings og þeirra aðila sem eru við störf á heiðinni,“ segir Tryggi. 

Það snjóar úr öllum áttum og blæs úr öllum áttum

Það er ekki að ástæðulausu að Stefán Þormar Guðmundsson veitingamaður í Litlu kaffistofunni við Suðurlandsveg, segir að Litla kaffistofan sé björgunarskýli sem er hárrétt staðsett því hann segir veturinn það versta síðan hann tók við rekstrinum fyrir  24 árum.

„Þetta byrjaði fyrstu helgina í desember og ég man aldrei eftir að það hafi verið jafn oft lokað yfir Hellisheiðina og Þrengslin. Það hefur oft snjóað meira en við höfum aldrei fengið svona vitlaust veður allan daginn og nánast allan sólarhringinn. Það snjóar úr öllum áttum og það rignir úr öllum áttum og blæs úr öllum áttum. Þannig hefur veðráttan verið í vetur,“ segir Stefán sem er afar þakklátur björgunarsveitunum fyrir sitt starf því þær hafa oft komið ferðafólki til bjargar sem hefur orðið strandarglópar í Litlu kaffistofunni. 

Starfsfólkið í Staðarskála í Hrútafirði hefur heldur betur staðið sig vel í vetur og tekið á móti hröktu ferðafólki ítrekað, stundum í hundraða vís. 

Þetta er bara íslenskt vetrarveður

Þann 25. janúar fengu 300-400 manns athvarf í Staðarskála, hvert sæti var skipað í skál­an­um og enn­frem­ur setið á gólf­inu.

Sig­ríður Sif, vakt­stjóri í Staðarskála sagði þá í samtali við mbl.is að stemn­ing­in væri ró­leg og fólk reyni að gera gott úr stöðunni. „Fólk er bara að fá sér að borða og spjalla. Hér er setið á gólf­um og borðum og hvar sem hægt er. Fólk sit­ur bara alls staðar.“ Sig­ríður seg­ir aðspurð að veðrið á svæðinu sé slæmt, hríðarbyl­ur og ekk­ert skyggni. „En þetta geng­ur yfir. Þetta er bara ís­lenskt vetr­ar­veður.“

Tvisvar hefur þurft að opna fjöldahjálparstöð hjá Rauða krossinum vegna óveðurs og ófærðar á Holtavörðuheiði í vetur þar sem koma hefur þurft um 300 manns í gistingu.

 Gunnar Örn Jakobsson, formaður björgunarsveitarinnar Húna á Hvammstanga, segir veturinn hafi reynt á en veðrið var óvenjulegt og vindáttir sem ekki eru ríkjandi á Norðvesturlandi hafa verið að valda erfiðleikum. Þetta í samræmi við það sem veðurfræðingar og starfsmenn Vegagerðarinnar tala um.

Ekki norðanáhlaup heldur að sunnan

„Hér áður voru óveðursútköllin yfirleitt tengt norðanáhlaupum en í vetur var oftar en ekki í sunnanátt þegar aðstoða þurfti ferðafólk og því ekki sömu staðir á Holtavörðuheiðinni sem fólk sat fast og oft áður,“ segir Gunnar.

Hann segir að frá áramótum standi nokkrir hræðilegir toppar upp úr, einkum í lok janúar, í byrjun og í lok mars og fyrri hluti aprílmánaðar.

Nefnir hann sem dæmi tíu bíla árekstur í Biskupsbeygju þann 27. mars og tólf bíla árekstur tveimur vikum síðar á Miklagili. „Það er erfitt að eiga við svo viðamikil umferðaróhöpp, hvað þá í brjáluðu veðri, hátt uppi á heiðum,“ segir Gunnar.

Það eru um og yfir tíu í björgunarsveitinni Húna sem hafa borið hitann og þungann af óveðursútköllum vetrarins og frídagarnir fáir.

„Það hefur þó viljað svo heppilega til að þetta hefur í flestum tilvikum verið á frídögum þannig að við höfum getað sinnt útköllum í okkar frítíma en ekki á vinnutíma. En að sjálfsögðu eru menn orðnir lúnir og þetta reynir á tækjabúnað sveitarinnar,“ segir Gunnar.

Vita vart hvernig á þeim stendur veðrið

Hann segir að björgunarsveitarmenn finni fyrir því að fleiri útlendir ferðamenn eru á ferðinni að vetrarlagi og oft hafi þeir ekki  næga þekkingu á vetrarakstri. En það sé allt of mikil einföldun að útköllin tengist þeim alfarið því flest útköllin tengist aftakaveðri.

„Við höfum komið  að skelfingu lostnum ferðamönnum sem hreinlega vita ekki hvernig stendur á þeim veðrið í orðsins fyllstu merkingu. Sem er ekki skrýtið því stundum sést vart fram fyrir húddið á bílnum,“ segir Gunnar og bætir við að fólk sé afar þakklátt fyrir aðstoðina sem það fær. Oft fellst aðstoðin í því að flytja fólk úr bílum sínum af heiðinni og í Staðarskála og sækja það síðan aftur þegar veðrið gengur niður svo það komist leiðar sinnar. 

Þegar rennt er yfir fréttasafn mbl.is eftir veturinn sést að það eru ófáar fréttirnar af veðri og færð í vetur. Meðal annars hefur oft þurft að aflýsa innanlandsflugi og að sögn Inga Þórs Guðmundssonar, forstöðumanns sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands, hefur um 700 flugferðum verið aflýst í vetur vegna veðurs, þar af 400 frá áramótum. Það sem er öðruvísi í vetur en á hefðbundnum vetri er að yfirleitt hefur þurft að aflýsa flugferðum vegna veðurs á suðvesturhorninu. Í svipaðan streng taka starfsmenn flugfélagsins Ernir en þar hefur einnig þurft að aflýsa hundruð flugferða í vetur.

Snjóaði sama dag og byrjað var að sópa vetrarminningum á brott

Nokkrar vikur eru síðan byrjað var að sópa hjóla- og göngustíga í Reykjavík en að sögn Björns Ingvarssonar var eiginlega of snemma farið af stað því það var ekki enn hætt að snjóa og frysta þegar tæki borgarinnar voru byrjuð hreinsa minningar um ófærðina í vetur í burtu.

Búið er að hreinsa alla helstu hjóla- og göngustíga  Reykjavíkur og er það mun fyrr en í fyrra en þá var ekki búið að hreinsa stígana þegar átakið hjólað í vinnuna fór af stað í maí.

Að sögn Björns er þetta í fyrsta skipti sem stígarnir eru hreinsaðir þvert á hverfi þannig að það er ekki miðað við að ljúka við eitt hverfi áður en það næsta er tekið fyrir. Núna stendur yfir hefðbundin gatna- og gangstéttahreinsun í hverfum borgarinnar og lýkur því verki á næstum vikum.

Þrátt fyrir leiðindaveður í vetur vill Veðurstofa ekki meina að um met sé að ræða en þó hafa lægðir verið í stærri kantinum og ofsaveður yfir meðallagi. „Ég held að við séum orðin viðkvæmari fyrir vondu veðri. Ef við skoðum vetur í kringum 1930 eða t.d. 1970 þá eru ekki færri óveður, það eru bara færri á ferðinni,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, vaktaveðurfræðingur í viðtali við Sunnudagsblaðið fyrr í mánuðinum. Óánægja með slæma veðurspá hefur skinið í gegn hjá landanum og miklar líkur á að það beri á góma í hverju samtali.

Búast má við að hlýindakafla sem hófst í kringum 1990 fari senn að ljúka og við taki um 30 ára kuldaskeið. Umhleypingar í vetur hafa ekki verið óvenjulegir, að öðru leyti en því að lítið hefur borið á norðanáttum.

Þetta er mat Páls Bergþórssonar, fyrrverandi veðurstofustjóra, sem enn fylgist mjög vel með tíðarfarinu þó að hann sé kominn á tíræðisaldur, verður 92 ára í sumar. Páll segir í viðtali við Morgunblaðið í lok febrúar, veturinn að mörgu leyti hafa verið hefðbundinn miðað við undanfarin ár.

 „Framan af vetri hefur þetta verið hefðbundið og tiltölulega milt og hlýtt allan tímann. Að vísu var kalt í desember en að jafnaði ekki verið ólíkt því tíðarfari sem hefur verið frá aldamótum, sem er hlýjasta tímabil sem hefur komið,“ segir Páll.

Það er því ekkert annað í boði en að fylgjast grannt með veðurfréttum næstu vikur og vona að sumarið verði gott um allt land. Spáin fyrir næstu daga er kannski ekki til þess auka bjartsýni landans en þá er að bíta á jaxlinn og muna að veðráttan á Íslandi er óútreiknanleg og ef svo væri ekki gæti fólk fljótt orðið uppiskroppa með umræðuefni.

Lokanir á fjallvegum

Björgunarsveitir að störfum
Björgunarsveitir að störfum Mynd/Landsbjörg
Björgunarsveitir landsins hafa staðið sig með miklum sóma við að …
Björgunarsveitir landsins hafa staðið sig með miklum sóma við að aðstoða fólk sem hefur lent í ógöngum í vetur Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Desember 2014 var erfiður mánuður og ítrekað þurfti að vara …
Desember 2014 var erfiður mánuður og ítrekað þurfti að vara fólk við ferðalögum. Slysavarnarfélagið Landsbjörg
Óveður á höfuðborgarsvæðinu - eitt af mörgum
Óveður á höfuðborgarsvæðinu - eitt af mörgum mbl.is/Ómar Óskarsson
Blindbylur og 13 vindstig á Hellisheiði
Blindbylur og 13 vindstig á Hellisheiði mbl.is/Þorkell Þorkelsson
Mörg tré rifnuðu upp með rótum í óveðrinu 14. mars
Mörg tré rifnuðu upp með rótum í óveðrinu 14. mars mbl.is/Golli
Ljósmynd/Margrét Birgisdóttir
Ljósmynd/Landsbjörg
Spá fyrir vind kl. 17 miðvikudaginn 25. febrúar. Rauðir og …
Spá fyrir vind kl. 17 miðvikudaginn 25. febrúar. Rauðir og gulbrúnir litir tákna hættulegasta vindinn. Vindaspá þessi er reiknuð af Veðurstofu Íslands með Harmonie veðurlíkaninu. Spáin uppfærist fjórum sinnum á sólarhring Veðurstofa Íslands
.
. Screenshot/Med Office
Mokstur á Suðurlandsvegi
Mokstur á Suðurlandsvegi Malín Brand
mbl.is/Styrmir Kári
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert