„Þetta var ömurlegur vetur“

Skjáskot af nullschool.net

„Þetta var öm­ur­leg­ur vet­ur,“ er setn­ing sem víða heyr­ist þessa dag­ana enda ekki skrýtið, menn muna ekki annað eins. Útköll björg­un­ar­sveita eru tvö­falt fleiri í vet­ur en vet­ur­inn á und­an og Vega­gerðin, líkt og mörg sveit­ar­fé­lög, standa frammi fyr­ir gríðarleg­um kostnaði vegna veðrátt­unn­ar í vet­ur.

Vetr­arþjón­usta er hjá Vega­gerðinni all­an sól­ar­hring­inn frá því í októ­ber fram í apríl og í hús­næði Vega­gerðar­inn­ar í Hafnar­f­irði og Ísaf­irði er fylgst með veðri, færð og öllu sem til þarf til þess að sinna þessu eft­ir­liti. Vetr­ar­eft­ir­lit­inu á að vera lokið í vet­ur en vegna veðurút­lits nú um helg­ina hef­ur auka­vökt­um verið bætt á. Ekki sé annað hægt enda minn­ir spá­in lítt á sum­ar þó svo al­mannakið segi annað.

4,4 sinn­um til tungls­ins í vet­ur

Snjómokst­urs­tæki í vinnu fyr­ir Vega­gerðina fóru vega­lengd í vet­ur sem jafn­gild­ir því að hafa farið 4,4 sinn­um til tungls­ins. Vet­ur­inn var einn sá erfiðasti í vetr­arþjón­ustu hjá Vega­gerðinni og þurfti að sinna þjón­ustu mokstri eða hálku­vörn­um upp á hvern ein­asta dag. Venju­lega vet­ur koma dag­ar þar sem ekki þarf að senda út bíl nema í eft­ir­lit. En því var ekki að heilsa í vet­ur.

Áætla má að á  land­inu öllu hafi   snjómokst­urs­tæk­in ekið um 1.690.000 km, og notað 19.400 tonn af salti (salt í pækli og sandi meðtalið), 6.000 rúm­metr­ar af pækli og 13.000 tonn af sandi.

Á land­inu öllu voru þjón­ustu­dag­arn­ir 212 sem eru all­ir dag­arn­ir á tíma­bil­inu eða 100 pró­sent. Það þurfti því að þjón­usta vega­kerfið upp á hvern ein­asta dag, ein­hversstaðar sem er óvenju­leg staða, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Vega­gerðinni.

Mikið álag á starfs­fólk Vega­gerðar­inn­ar og verk­taka

Kostnaður­inn við þetta var að meðaltali um 9,2 millj­ón­ir króna við snjómokst­ur­inn ein­an. Þannig að segja má að kostnaður­inn hafi verið tvær rúm­góðar íbúðir á höfuðborg­ar­svæðinu í hverri ein­ustu viku í all­an vet­ur.

Þetta er meðaltals­kostnaður­inn á dag, en erfiðustu dag­ana í vet­ur hef­ur kostnaður­inn á dag við snjómokst­ur­inn á land­inu öllu farið upp 22 – 25 millj­ón­ir króna.  Jó­hann B. Skúla­son,  yf­ir­verk­stjóri í þjón­ustu­stöð Vega­gerðar­inn­ar í Hafnar­f­irði, seg­ir að mikið hafi reynt á starfs­fólk. Þetta sé hins veg­ar alls ekki búið því víða þarf að bæta fyr­ir tjón vetr­ar­ins, svo sem á vegriðum, skilt­um og síðast en ekki síst á göt­um sem eru hol­ótt­ar sem aldrei fyrr.

Mesti kostnaður­inn teng­ist Reykja­nes­braut, Hell­is­heiði, Þrengsl­um og Suður­lands­vegi að Rauðavatni. Að sögn Jó­hanns þurfti meira að segja að loka Reykja­nes­braut­inni þris­var í vet­ur en þar var óvenju­hvasst og um leið kalt. 

Það má eig­in­lega segja að orð sem voru ekki áður hluti af hefðbund­inni orðræðu; svo sem af­taka­veður, af­spyrnurok, stórviðri, storm­belg­ing­ur, sló oft fyr­ir af öll­um átt­um og svo mætti lengi telja, yrðu hluti af dag­legri umræðu. Minna var hins veg­ar um að orðið dauðalogn væri notað í veður­frétt­um vetr­ar. Bræla kom ít­rekað fyr­ir í sam­töl­um blaðamanns við starfs­menn vakt­stöð sigl­inga hjá Land­helg­is­gæsl­unni enda vet­ur­inn ansi erfiður ís­lensk­um sjó­mönn­um.

Snemma árs 2014 gerðu Vega­gerðin sam­komu­lag við björg­un­ar­sveit­ir inn­an vé­banda Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar sem eru staðsett­ar við helstu far­ar­tálma að vetr­ar­lagi.

Vega­gerðin fékk björg­un­ar­sveit­ir til liðs við sig að manna lok­un­ar­pósta við ræt­ur tor­fær­ari heiða til að koma í veg fyr­ir að ferðalang­ar lentu í vand­ræðum þegar ljóst væri að heiðin myndi lokast vegna fann­ferg­is, hálku eða ofsa­veðurs.

Skil­greind voru tvö stig lok­ana ann­ars veg­ar svo­kölluð mjúk lok­un þar sem björg­un­ar­sveit­ir væru til staðar á lok­un­ar­póst­um og gætu gefið veg­far­end­um upp­lýs­ing­ar um yf­ir­vof­andi veður og einnig bent þeim á ef far­ar­tæk­in væru van­bú­in til vetr­arakst­urs.

Hins veg­ar var björg­un­ar­sveit­um falið að manna lok­un­ar­hlið þegar ljóst væri að heiðar væru orðnar ófær­ar. Vega­gerðin greiðir björg­un­ar­sveit­um fyr­ir þessi lok­un­ar­verk­efni. Mat Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar er að sam­vinnu­verk­efni Vega­gerðar­inn­ar og fé­lag­ins hafi verið afar vel heppnað og dregið úr óþarfa út­köll­um og að sama skapi aukið þjón­ustu við veg­far­end­ur.

Þó svo að mörg­um sé of­ar­lega í huga að vet­ur­inn hafi verið erfiður þá hafa íbú­ar á Norður- og Aust­ur­landi sloppið mun bet­ur frá vetr­in­um en íbú­ar annarra lands­hluta og ekki al­gengt að Hell­is­heiði sé oft­ar lokað en Vík­ur­skarði yfir vetr­ar­tím­ann líkt og var í vet­ur.

Ballið byrjaði þann 30. nóv­em­ber

Veðrið var þokka­legt fyrsta mánuð vetr­ar en í lok nóv­em­ber hófst harðindakafli sem stóð yfir fram yfir ára­mót.

Þann 30. nóv­em­ber skall á af­taka­veður, öllu flugi var af­lýst inn­an­lands og hluta milli­landa­flugs. All­ar sam­göng­ur á land­inu riðluðust og björg­un­ar­sveit­ir stóðu í ströngu við að bjarga því sem bjargað var. Allt fauk sem fokið gat að sögn björg­un­ar­sveit­ar­manna. Þak­plöt­ur og jafn­vel þök í heilu lagi. Mikið var um brotna glugga og hurðir sem höfðu fokið upp, skúr­ar fuku, klæðning­ar losnuðu, sólpall­ar og girðing­ar fóru af stað og tré sem jóla­tré féllu.

„Þann 30. nóv­em­ber byrjuðu læt­in og stóðu linnu­lítið til 14. apríl,“ seg­ir Jó­hann. Þetta var ekki bara slæmt veður í vet­ur held­ur var þetta líka leiðin­legt veður seg­ir hann. „Mikið hvassviðri, ofan­koma og skafrenn­ing­ur. Svo kom slydda á milli og þíða en ekki samt það gott að það þyrfti ekki að fara út. Þetta var mikið álag á bíl­stjór­ana hjá verk­tök­un­um sem og tæki þeirra,“ seg­ir Jó­hann.

Vet­ur­inn, frá fyrsta vetr­ar­degi 25. októ­ber 2014 til síðasta vetr­ar­dags, 22. apríl 2015, var ívið kald­ari um landið sunn­an- og vest­an­vert held­ur en að meðaltali síðustu tíu ár, en hins veg­ar yfir því norðaust­an­lands, seg­ir í yf­ir­liti sem Trausti Jóns­son, veður­fræðing­ur á Veður­stofu Íslands, tók sam­an fyr­ir mbl.is.

All­ar út­gáf­ur af veðurfari

Líkt og Jó­hann seg­ir þá hafa sést all­ar út­gáf­ur af veðurfari und­an­farna mánði eða eins eins og einn veður­fræðing­ur orðaði það svo ágæt­lega þegar hann var spurður um jafn­fall­in snjó í vet­ur: Það var nú ekki mikið um að snjór væri jafn­fall­inn svo mik­ill var vind­ur­inn.

Í Reykja­vík hef­ur vetr­arþjón­ust­an kostað borg­ar­yf­ir­völd tæp­lega 700 millj­ón­ir króna í vet­ur sem er 200 millj­ón króna hærri fjár­hæð held­ur en vet­ur­inn á und­an.

Björn Ingvars­son, deild­ar­stjóri þjón­ustumiðstöðvar Reykja­vík­ur­borg­ar, tek­ur und­ir með þeim sem kvarta yfir vetr­in­um enda hef­ur mikið álag verið á starfs­mönn­um borg­ar­inn­ar sem sinna snjóruðningi og hálku­eyðingu í vet­ur.

„Versti mánuður­inn var des­em­ber. Hann var hræðileg­ur. Þá vor­um við alla daga að. Þetta var ekki al­veg jafn slæmt eft­ir ára­mót en samt anna­sam­ir,“ seg­ir Björn.

Mesta vind­hviðan 73,5 metr­ar á sek­úndu

Að sögn Trausta Jóns­son­ar, veður­fræðings, var meðal­hit­inn 1,3 stig í Reykja­vík sem er 0,7 gráðum yfir meðallagi ár­anna 1961 til 1990, en 0,4 gáðum und­ir meðallagi síðustu tíu ára. Vetr­ar­hit­inn nú er sá sami og var vet­ur­inn 2010 til 2011 og 2007 og 2008. Á Ak­ur­eyri var meðal­hiti vetr­ar­ins +0,7 stig. Það er 1,7 stig­um yfir meðallagi ár­anna 1961 til 1990 og 0,4 stig­um ofan meðal­hita síðustu tíu ára. Síðustu tíu árin hef­ur vet­ur­inn aðeins einu sinni verið hlýrri en nú, það var 2012, en jafn­hlýtt var á Ak­ur­eyri í fyrra­vet­ur og nú, seg­ir Trausti.

Mesta frost sem mæld­ist á land­inu í vet­ur var 26 stig sem mæld­ist við Set­ur sunn­an Hofs­jök­uls þann 11. janú­ar. Mest frost í byggð mæld­ist í Svar­tár­koti 21. fe­brú­ar 24,1 stig.
  Mest frost í Reykja­vík mæld­ist 9,6 stig, þann 3. fe­brú­ar. Það er sjald­an sem vetr­ar­lág­marks­hit­inn hef­ur verið svona hár. Mesta frost á Ak­ur­eyri í vet­ur mæld­ist 14 stig. Það gerðist 22. fe­brú­ar. Mesta frostið sem mæld­ist á Ísaf­irði var 11,5 stig, það var 12. fe­brú­ar og á Eg­ils­stöðum mæld­ist mest frost 18,8 stig þann 19. janú­ar.

Mesti vind­hraði vetr­ar­ins (10-mín­útna meðaltal) mæld­ist á Stór­höfða í Vest­manna­eyj­um 22. fe­brú­ar, 46,3 m/​s. Mesta vind­hviða mæld­ist við Miðfitja­hól á Skarðsheiði 14. mars, 73,5 m/​s.
  Veðrið 14. mars var það versta í vet­ur hvað vind áhrær­ir en þann dag mæld­ist fár­viðri á mörg­um stöðvum í byggð en það er óvenju­legt, seg­ir Trausti.

Vinda­kort­in oft æði skraut­leg

Teit­ur Ara­son, veður­fræðing­ur, tek­ur und­ir þetta að veðurofs­inn þenn­an dag eigi sér vart hliðstæðu en mikið hef­ur mætt á vakt­haf­andi veður­fræðing­um á Veður­stofu Íslands í dag. Hafa vinda­kort verið skraut­legri en áður hef­ur þekkst og örv­ar vísað í all­ar átti, jafn­vel á sama kort­inu. 

Víðir Reyn­is­son, deild­ar­stjóri Al­manna­varna, seg­ir álagið á neyðarlínu og björg­un­ar­sveit­ir hafa verið einkar mikið.

„Þetta var með verri veðrum sem maður hef­ur séð í mörg ár. Það sem var líka sér­stakt fyr­ir okk­ur í þessu var sá fjöldi sem hringdi með til­kynn­ing­ar um vanda­mál. Eins og þekkt er orðið náðist víða ekki sam­band. Það var því mik­ill lær­dóm­ur sem skapaðist í gær sem við þurf­um að nýta vel. Það eru all­ir hérna sam­mála um það að fara vel yfir þessi mál og reyna hvað við get­um til þess að bæta kerfið svo þetta ger­ist ekki aft­ur. Það er nátt­úr­lega nán­ast ómögu­legt að prófa kerfið öðru­vísi en í svona raunaðstæðum. Við höfðum oft velt því fyr­ir okk­ur hvernig það yrði ef svona gríðarlegt álag skapaðist. Þetta gaf okk­ur því tæki­færi til þess að skoða það vel,“ seg­ir hann en fram að há­degi þenn­an dag svörðu starfs­menn Neyðarlín­unn­ar 1.400 sím­töl­um. Fjöl­marg­ir náðu ekki í gegn slíkt var álagið.

Feðgarn­ir Marinó Tryggva­son og Jón Þór Marinós­son í Hvíta­nesi í Hval­fjarðarsveit urðu fyr­ir því óveðrinu laug­ar­dag­inn 14. mars að hlaða og fjós hrundu í óveðrinu ofan á þá og kálfa í fjós­inu.

„Við kom­um kálf­un­um úr hlöðunni og inn í fjósið en þá féll hlöðugafl­inn inn í fjósið og ofan á okk­ur og kálf­ana,“ seg­ir Jón Þór.

„Við feðgar slupp­um með skrám­ur. Við vor­um komn­ir í einskon­ar sjálf­heldu en náðum að redda okk­ur þarna út á traktor,“ seg­ir hann en í ljós kom að einn kálf­ur­inn hafði orðið und­ir gafl­in­um og drep­ist.

Mos­fells­bær fór nán­ast á flot og tré rifnuðu upp með rót­um víða um land. Tjónið hleyp­ur á tug­um millj­óna og líkt og oft er þá fæst ekki allt bætt. 

1.826 út­köll hjá björg­un­ar­sveit­un­um

Líkt og sést í kort­inu sem fylg­ir með hef­ur þurft að loka Hell­is­heiði óvenju oft í vet­ur og Kletts­háls hef­ur verið ít­rekað lokað, líkt og fleiri fjall­veg­ir á land­inu. 

Aðgerðum björg­un­ar­sveita hef­ur fjölgað mikið sé borið sama við síðasta vet­ur. Björg­un­ar­sveit var kölluð út í vet­ur í 1.826 skipti sam­an­borið við 972 skipti í fyrra. Mikið af þess­ari aukn­ingu má rekja til rysj­óttr­ar tíðar, fjöl­farn­ir fjall­veg­ir hafa verið erfiðir og þarf lítið að bregða útaf til að slæmt ástand skap­ist, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Slysa­varn­ar­fé­lag­inu Lands­björg. Dæmi sem sýn­ir vel aukn­ingu verk­efna er að í fyrra­vet­ur voru fjór­ar sveit­ir sem fóru í fleiri en 20 út­köll en í ár eru þær orðnar 32.

Um helm­ing­ur út­kalla tengd ófærð og óveðursaðstoð

Tryggvi Hjört­ur Odds­son, full­trúi í svæðis­stjórn björg­un­ar­sveita í Árnes­sýslu og formaður Björg­un­ar­fé­lags Árborg­ar, seg­ir dæmi um að ein­hverj­ar björg­un­ar­sveit­ir í Árnes­sýslu hafi sinnt hátt í fimm­tíu út­köll­um síðan 1. sept­em­ber og má reikna með að um það bil helm­ing­ur þeirra verk­efna hafi verið tengd­ur ófærð og óveðursaðstoð. Það mæðir auðvitað mest á þeim sveit­um sem eru næst Hell­is­heiðinni, Þrengsl­un­um og Lyng­dals­heiði og aðrar sveit­ir í sýsl­unni koma þeim til aðstoðar þegar þörf kref­ur, seg­ir Tryggvi.

Að sögn Tryggva eru erfiðustu og um leið minn­is­stæðast­ir þeir dag­ar þar sem flest­um leiðum til Reykja­vík­ur hef­ur verið lokað, s.s. Hell­is­heiði, Þrengsl­um, Lyng­dals­heiði og Mos­fells­heiði. Þetta kall­ar á mik­inn viðbúnað hjá björg­un­ar­sveit­um og eru jafn­vel 50-60 manns að sinna verk­efn­um á þessu svæði ein­göngu tengt ófærð og ferðalang­arn­ir sem ekki kom­ast leiðar sinn­ar eru fleiri hundruð.

Að sögn Jó­hanns hjá Vega­gerðinni ann­ast björg­un­ar­sveit­ir lok­un heiða eins og Hell­is­heiði og Þrengsla en víðtækt sam­ráð er haft þegar kem­ur að því að loka leiðum. Það sé frek­ar lokað fyrr en seinna því ef snjóruðnings­menn, sem þekkja hvern stein og hvern skafl á heiðinni telja nán­ast óger­legt að halda heiðinni op­inni án þess að leggja fólk í hættu, þá sé glóru­laust að senda ferðalanga af stað. 

Fátt annað hægt að gera en bíða

Tryggvi seg­ir að fólk bregðist yf­ir­leitt vel við. „Það vita flest­ir að það er fátt hægt að gera við ástandi sem þessu nema að bíða. Helst kem­ur þetta ferðamönn­um sem eru á eig­in veg­um í opna skjöldu en yf­ir­leitt næst að leysa úr því. Oft­ast nær hef­ur Suður­strand­ar­veg­ur­inn verið op­inn og þokka­lega greiðfær svo þeir sem virki­lega hafa þurft að kom­ast hafa getað lagt á hann,“ seg­ir Tryggi en  bæt­ir við að auðvitað séu dæmi um að fólk hundsi slæma spá og viðvar­an­ir frá Vega­gerðinni. 

 „Það sem að hef­ur breyst í vet­ur er að Vega­gerðin er að taka ákv­arðanir fyrr um að loka t.d. Hell­is­heiði og Þrengsl­um og það skil­ar sér í því að björg­un­ar­sveit­irn­ar eiga auðveld­ara með að greiða úr þeim flækj­um sem mynd­ast hafa á veg­un­um sem skil­ar sér í því að hægt er að opna fyrr aft­ur auk þess að minni tími fer hjá björg­un­ar­sveit­un­um í út­köll­in.

Það sem að veld­ur okk­ur hins­veg­ar áhyggj­um er sú staðreynd að það er alltaf einn og einn sem virðir ekki lok­an­ir þrátt fyr­ir að lok­an­ir séu til­kynnt­ar á upp­lýs­inga­skilt­um, með lok­un­ar­slám og jafn­vel bíl við lok­un­ar­póst­inn og legg­ur á lokaða vegi.

Skýr­ing öku­manna er oft á tíðum sú að þeir treysti sér al­veg til þess að keyra yfir án þess að lenda í vand­ræðum, þeir séu á jeppa eða van­ir öku­menn.

Hins­veg­ar er það svo að oft­ar en ekki er það skyggnið sem er að valda því að loka þarf veg­un­um og eru dæmi um það að björg­un­ar­sveita­menn hafi ekki séð fram fyr­ir húddið á bíl­um sín­um í þess­um út­köll­um.

Það veld­ur okk­ur tals­verðum áhyggj­um að lok­an­ir séu ekki virt­ar í ljósi þess að lok­an­irn­ar eru líka mik­il­væg­ur ör­ygg­isþátt­ur fyr­ir þá sem eru við störf á t.d Hell­is­heiði við að ferja fólk úr bíl­um og losa fasta bíla. Með því að loka veg­in­um á meðan t.d. björg­un­ar­sveit­ir og starfs­fólk Vega­gerðar­inn­ar er við störf sín er búið að lág­marka hætt­una á því að ökumaður sem ann­ars hefði lagt á veg­inn verði þeirra sem eru við störf á heiðinni ekki var og aki á þá eða kyrr­stæð öku­tæki og valdi með því mögu­lega stór­tjóni. 

Það er því mik­il­vægt að öku­menn hafi það í huga þegar að veg­un­um er lokað að það er ekki ein­göngu gert vegna ófærðar á veg­in­um, held­ur líka bæði vegna þess að skyggni get­ur verið gríðarlega slæmt og einnig til að tryggja ör­yggi al­menn­ings og þeirra aðila sem eru við störf á heiðinni,“ seg­ir Tryggi. 

Það snjó­ar úr öll­um átt­um og blæs úr öll­um átt­um

Það er ekki að ástæðulausu að Stefán Þorm­ar Guðmunds­son veit­ingamaður í Litlu kaffi­stof­unni við Suður­lands­veg, seg­ir að Litla kaffi­stof­an sé björg­un­ar­skýli sem er hár­rétt staðsett því hann seg­ir vet­ur­inn það versta síðan hann tók við rekstr­in­um fyr­ir  24 árum.

„Þetta byrjaði fyrstu helg­ina í des­em­ber og ég man aldrei eft­ir að það hafi verið jafn oft lokað yfir Hell­is­heiðina og Þrengsl­in. Það hef­ur oft snjóað meira en við höf­um aldrei fengið svona vit­laust veður all­an dag­inn og nán­ast all­an sól­ar­hring­inn. Það snjó­ar úr öll­um átt­um og það rign­ir úr öll­um átt­um og blæs úr öll­um átt­um. Þannig hef­ur veðrátt­an verið í vet­ur,“ seg­ir Stefán sem er afar þakk­lát­ur björg­un­ar­sveit­un­um fyr­ir sitt starf því þær hafa oft komið ferðafólki til bjarg­ar sem hef­ur orðið strand­arglóp­ar í Litlu kaffi­stof­unni. 

Starfs­fólkið í Staðarskála í Hrútaf­irði hef­ur held­ur bet­ur staðið sig vel í vet­ur og tekið á móti hröktu ferðafólki ít­rekað, stund­um í hundraða vís. 

Þetta er bara ís­lenskt vetr­ar­veður

Þann 25. janú­ar fengu 300-400 manns at­hvarf í Staðarskála, hvert sæti var skipað í skál­an­um og enn­frem­ur setið á gólf­inu.

Sig­ríður Sif, vakt­stjóri í Staðarskála sagði þá í sam­tali við mbl.is að stemn­ing­in væri ró­leg og fólk reyni að gera gott úr stöðunni. „Fólk er bara að fá sér að borða og spjalla. Hér er setið á gólf­um og borðum og hvar sem hægt er. Fólk sit­ur bara alls staðar.“ Sig­ríður seg­ir aðspurð að veðrið á svæðinu sé slæmt, hríðarbyl­ur og ekk­ert skyggni. „En þetta geng­ur yfir. Þetta er bara ís­lenskt vetr­ar­veður.“

Tvisvar hef­ur þurft að opna fjölda­hjálp­ar­stöð hjá Rauða kross­in­um vegna óveðurs og ófærðar á Holta­vörðuheiði í vet­ur þar sem koma hef­ur þurft um 300 manns í gist­ingu.

 Gunn­ar Örn Jak­obs­son, formaður björg­un­ar­sveit­ar­inn­ar Húna á Hvammstanga, seg­ir vet­ur­inn hafi reynt á en veðrið var óvenju­legt og vindátt­ir sem ekki eru ríkj­andi á Norðvest­ur­landi hafa verið að valda erfiðleik­um. Þetta í sam­ræmi við það sem veður­fræðing­ar og starfs­menn Vega­gerðar­inn­ar tala um.

Ekki norðaná­hlaup held­ur að sunn­an

„Hér áður voru óveðursút­köll­in yf­ir­leitt tengt norðaná­hlaup­um en í vet­ur var oft­ar en ekki í sunna­nátt þegar aðstoða þurfti ferðafólk og því ekki sömu staðir á Holta­vörðuheiðinni sem fólk sat fast og oft áður,“ seg­ir Gunn­ar.

Hann seg­ir að frá ára­mót­um standi nokkr­ir hræðileg­ir topp­ar upp úr, einkum í lok janú­ar, í byrj­un og í lok mars og fyrri hluti apr­íl­mánaðar.

Nefn­ir hann sem dæmi tíu bíla árekst­ur í Bisk­ups­beygju þann 27. mars og tólf bíla árekst­ur tveim­ur vik­um síðar á Miklagili. „Það er erfitt að eiga við svo viðamik­il um­ferðaró­höpp, hvað þá í brjáluðu veðri, hátt uppi á heiðum,“ seg­ir Gunn­ar.

Það eru um og yfir tíu í björg­un­ar­sveit­inni Húna sem hafa borið hit­ann og þung­ann af óveðursút­köll­um vetr­ar­ins og frí­dag­arn­ir fáir.

„Það hef­ur þó viljað svo heppi­lega til að þetta hef­ur í flest­um til­vik­um verið á frí­dög­um þannig að við höf­um getað sinnt út­köll­um í okk­ar frí­tíma en ekki á vinnu­tíma. En að sjálf­sögðu eru menn orðnir lún­ir og þetta reyn­ir á tækja­búnað sveit­ar­inn­ar,“ seg­ir Gunn­ar.

Vita vart hvernig á þeim stend­ur veðrið

Hann seg­ir að björg­un­ar­sveit­ar­menn finni fyr­ir því að fleiri út­lend­ir ferðamenn eru á ferðinni að vetr­ar­lagi og oft hafi þeir ekki  næga þekk­ingu á vetr­arakstri. En það sé allt of mik­il ein­föld­un að út­köll­in teng­ist þeim al­farið því flest út­köll­in teng­ist af­taka­veðri.

„Við höf­um komið  að skelf­ingu lostn­um ferðamönn­um sem hrein­lega vita ekki hvernig stend­ur á þeim veðrið í orðsins fyllstu merk­ingu. Sem er ekki skrýtið því stund­um sést vart fram fyr­ir húddið á bíln­um,“ seg­ir Gunn­ar og bæt­ir við að fólk sé afar þakk­látt fyr­ir aðstoðina sem það fær. Oft fellst aðstoðin í því að flytja fólk úr bíl­um sín­um af heiðinni og í Staðarskála og sækja það síðan aft­ur þegar veðrið geng­ur niður svo það kom­ist leiðar sinn­ar. 

Þegar rennt er yfir frétta­safn mbl.is eft­ir vet­ur­inn sést að það eru ófá­ar frétt­irn­ar af veðri og færð í vet­ur. Meðal ann­ars hef­ur oft þurft að af­lýsa inn­an­lands­flugi og að sögn Inga Þórs Guðmunds­son­ar, for­stöðumanns sölu- og markaðssviðs Flug­fé­lags Íslands, hef­ur um 700 flug­ferðum verið af­lýst í vet­ur vegna veðurs, þar af 400 frá ára­mót­um. Það sem er öðru­vísi í vet­ur en á hefðbundn­um vetri er að yf­ir­leitt hef­ur þurft að af­lýsa flug­ferðum vegna veðurs á suðvest­ur­horn­inu. Í svipaðan streng taka starfs­menn flug­fé­lags­ins Ern­ir en þar hef­ur einnig þurft að af­lýsa hundruð flug­ferða í vet­ur.

Snjóaði sama dag og byrjað var að sópa vetr­arminn­ing­um á brott

Nokkr­ar vik­ur eru síðan byrjað var að sópa hjóla- og göngu­stíga í Reykja­vík en að sögn Björns Ingvars­son­ar var eig­in­lega of snemma farið af stað því það var ekki enn hætt að snjóa og frysta þegar tæki borg­ar­inn­ar voru byrjuð hreinsa minn­ing­ar um ófærðina í vet­ur í burtu.

Búið er að hreinsa alla helstu hjóla- og göngu­stíga  Reykja­vík­ur og er það mun fyrr en í fyrra en þá var ekki búið að hreinsa stíg­ana þegar átakið hjólað í vinn­una fór af stað í maí.

Að sögn Björns er þetta í fyrsta skipti sem stíg­arn­ir eru hreinsaðir þvert á hverfi þannig að það er ekki miðað við að ljúka við eitt hverfi áður en það næsta er tekið fyr­ir. Núna stend­ur yfir hefðbund­in gatna- og gang­stétta­hreins­un í hverf­um borg­ar­inn­ar og lýk­ur því verki á næst­um vik­um.

Þrátt fyr­ir leiðinda­veður í vet­ur vill Veður­stofa ekki meina að um met sé að ræða en þó hafa lægðir verið í stærri kant­in­um og ofsa­veður yfir meðallagi. „Ég held að við séum orðin viðkvæm­ari fyr­ir vondu veðri. Ef við skoðum vet­ur í kring­um 1930 eða t.d. 1970 þá eru ekki færri óveður, það eru bara færri á ferðinni,“ seg­ir Elín Björk Jón­as­dótt­ir, vakta­veður­fræðing­ur í viðtali við Sunnu­dags­blaðið fyrr í mánuðinum. Óánægja með slæma veður­spá hef­ur skinið í gegn hjá land­an­um og mikl­ar lík­ur á að það beri á góma í hverju sam­tali.

Bú­ast má við að hlý­indakafla sem hófst í kring­um 1990 fari senn að ljúka og við taki um 30 ára kulda­skeið. Um­hleyp­ing­ar í vet­ur hafa ekki verið óvenju­leg­ir, að öðru leyti en því að lítið hef­ur borið á norðanátt­um.

Þetta er mat Páls Bergþórs­son­ar, fyrr­ver­andi veður­stofu­stjóra, sem enn fylg­ist mjög vel með tíðarfar­inu þó að hann sé kom­inn á tíræðis­ald­ur, verður 92 ára í sum­ar. Páll seg­ir í viðtali við Morg­un­blaðið í lok fe­brú­ar, vet­ur­inn að mörgu leyti hafa verið hefðbund­inn miðað við und­an­far­in ár.

 „Fram­an af vetri hef­ur þetta verið hefðbundið og til­tölu­lega milt og hlýtt all­an tím­ann. Að vísu var kalt í des­em­ber en að jafnaði ekki verið ólíkt því tíðarfari sem hef­ur verið frá alda­mót­um, sem er hlýj­asta tíma­bil sem hef­ur komið,“ seg­ir Páll.

Það er því ekk­ert annað í boði en að fylgj­ast grannt með veður­frétt­um næstu vik­ur og vona að sum­arið verði gott um allt land. Spá­in fyr­ir næstu daga er kannski ekki til þess auka bjart­sýni land­ans en þá er að bíta á jaxl­inn og muna að veðrátt­an á Íslandi er óút­reikn­an­leg og ef svo væri ekki gæti fólk fljótt orðið uppiskroppa með umræðuefni.

Lokanir á fjallvegum

Björgunarsveitir að störfum
Björg­un­ar­sveit­ir að störf­um Mynd/​Lands­björg
Björgunarsveitir landsins hafa staðið sig með miklum sóma við að …
Björg­un­ar­sveit­ir lands­ins hafa staðið sig með mikl­um sóma við að aðstoða fólk sem hef­ur lent í ógöng­um í vet­ur Slysa­varn­ar­fé­lagið Lands­björg
Desember 2014 var erfiður mánuður og ítrekað þurfti að vara …
Des­em­ber 2014 var erfiður mánuður og ít­rekað þurfti að vara fólk við ferðalög­um. Slysa­varn­ar­fé­lagið Lands­björg
Óveður á höfuðborgarsvæðinu - eitt af mörgum
Óveður á höfuðborg­ar­svæðinu - eitt af mörg­um mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Blindbylur og 13 vindstig á Hellisheiði
Blind­byl­ur og 13 vindstig á Hell­is­heiði mbl.is/Þ​orkell Þorkels­son
Hellisheiði
Hell­is­heiði mbl.is/Ó​mar Óskars­son
Mörg tré rifnuðu upp með rótum í óveðrinu 14. mars
Mörg tré rifnuðu upp með rót­um í óveðrinu 14. mars mbl.is/​Golli
Ljós­mynd/​Mar­grét Birg­is­dótt­ir
Ljós­mynd/​Lands­björg
Spá fyrir vind kl. 17 miðvikudaginn 25. febrúar. Rauðir og …
Spá fyr­ir vind kl. 17 miðviku­dag­inn 25. fe­brú­ar. Rauðir og gul­brún­ir lit­ir tákna hættu­leg­asta vind­inn. Vinda­spá þessi er reiknuð af Veður­stofu Íslands með Harmonie veður­líkan­inu. Spá­in upp­fær­ist fjór­um sinn­um á sól­ar­hring Veður­stofa Íslands
.
. Screens­hot/​Med Office
Mokstur á Suðurlandsvegi
Mokst­ur á Suður­lands­vegi Malín Brand
mbl.is/​Styrm­ir Kári
Morg­un­blaðið/​Helgi Bjarna­son
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert