Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi fyrirskipaði þau viðskipti sem áttu sér stað hjá eigin viðskiptum bankans. Þá þótti Birni Snæ Björnssyni, almennum starfsmanni eigin viðskipta Kaupþings, beiðnirnar orðnar „ansi mikið“ og því var fundur hjá nokkrum starfsmönnum deildarinnar, þar sem rætt var við Einar Pálma Sigmundsson, yfirmann deildarinnar, um stöðu mála. Þetta var meðal þess sem kom fram í símtali frá því í maí 2010, sem spilað var í réttarhöldum í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag.
Ingólfur, Einar Pálmi og Birnir eru allir ákærðir í málinu, en í símtalinu ræðir Birnir við samstarfsmann sinn, Pétur Kristinn Guðmarsson, sem einnig er ákærður. Segir Pétur þar að í sumum tilfellum hafi þeir fengið beina hringingu frá Ingólfi eða að Ingólfur hafi hringt í Einar og fyrirskipað um ákveðin viðskipti.
Ræða þeir um hvort þessi miklu afskipti hafi verið eðlileg og segir Birnir að það hafi verið á ábyrgð Einars Pálma að koma athugasemdum til regluvarðar eftir að þeir höfðu rætt við hann og ef hann taldi eitthvað óeðlilegt eiga sér stað.
Spurður af saksóknara um aðkomu yfirmanna að ákvörðunum segir Birnir að hann hafi fengið skipun um ákveðið gengi á bréfum frá yfirmönnum sínum, en að hann hafi alltaf litið það þannig að það væri beiðni um kaup, en ekki að hann ætti að halda ákveðnu verði á bréfum Kaupþings.
Í öðru símtali við Þorvald Lúðvík Sigurjónsson, sem var áður forstöðumaður eigin viðskipta, ræða þeir Birnir um þau miklu kaup sem áttu sér stað. Segja þeir að ljóst hafi verið að Ingólfur hafi stjórnað „bókinni,“ en að þeir efist um að hann sé „plottari“ í málinu, heldur „kallarnir fyrir ofan hann.“
Birnir segir að í póstinum hans ættu að vera nægar sannanir fyrir því að hann hafi verið að spyrja Ingólf hvað ætti að gera og að skipanirnar kæmu þaðan. „Það er alveg obvious hver var að kalla þetta,“ segir hann.
Við réttarhöldin hafði áður komið fram að oft þegar Ingólfur hringdi í Einar Pálma hafi Einar kallað yfir deildina „styrkja biddið“ og var það eitthvað sem jafnvel var notað sem ákveðinn innanhúss brandari hjá deildinni.