Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá menn á aldrinum 22-51 árs fyrir að hafa ætlað að beita fulltrúa lögreglustjórans á Akureyri ofbeldi og tvo þeirra fyrir að hafa kveikt í bifreið hans.
Einn þeirra þremenninga er jafnframt ákærður fyrir fleiri brot, þar á meðal tilraun til fjárkúgunar og þjófnað.
Kveikt var í bifreið Eyþórs Þorbergssonar í nóvember í fyrra fyrir utan heimili hans. Það var að undirlagi þess elsta sem mennirnir tveir fóru að heimili Eyþórs en maðurinn hafði heitið þeim greiðslu að fjárhæð 300-500 þúsund krónur fyrir að beita Eyþór ofbeldi þar sem hann var ósáttur við afgreiðslu Eyþórs á sakamálum honum tengdum.
Annar árásarmannanna kom að heimili Eyþórs, vopnaður átaksskapti sem vó rúm 1400 grömm og með andlit sitt hulið, og knúði dyra. Er Eyþór opnaði hurðina sló maðurinn hann í handlegginn en Eyþóri tókst fljótlega að loka hurðinni og læsa. Meðan á þessu stóð vaktaði hinn maðurinn lögreglustöðina þannig að hann yrði þess var ef lögregla yrði kölluð út.
Tvímenningarnir helltu bensíni yfir bifreið Eyþórs í kjölfarið og kveiktu svo í tuskum sem þeir höfðu stungið í tvær glerflösku með bensíni í, köstuð flöskunum í bifreiðina og ollu með því eldsvoða sem hafði í för með sér almannahættu, en eldurinn breiddist út með þeim afleiðingum að mikið eignatjón varð á bifreiðinni en eldurinn var slökktur af lögreglu og slökkviliði.
Morguninn eftir fóru þeir til þess sem fékk þá til verksins í því skyni að fá greitt fyrir verkið en síðar sama dag keypti annar þeirra vörur fyrir samtals 56.500 krónur og greiddi fyrir þær með debetkorti í eigu mannsins sem fékk þá til verksins auk þess sem hann greiddi tvímenningunum samtals 50.000 krónur en fjármunirnir voru hluti af greiðslu fyrir árásina á Eyþór. Afleiðingar árásarinnar voru þær að Eyþór hlaut mar á vinstri framhandlegg og litla fingri vinstri handar.
Sá sem réðst á Eyþór er einnig ákærður fyrir að hafa ásamt rúmlega þrítugum karli og 22 ára gamalli konu reynt að hafa fé af manni með hótunum um að senda til hans menn í því skyni að beita hann ofbeldi og að bera á hann rangar sakir um kynferðisbrot ef hann ekki greiddi konunni fjármuni. Fengu þeir fórnarlambið til þess að millifæra eina milljón króna í apríl í fyrra inn á reikning konunnar en millifærslan tókst ekki.
Þau þrjú eru einnig ákærð fyrir gripdeild, með því að hafa í félagi tekið N1 kort, KEA afsláttarkort, Visa greiðslukort, vasahníf, bréfahníf, tvær fjarstýringar, þrjár skyrtur og buxur í eigu mannsins og haft á brott með sér.
Eins eru þau ákærð fyrir fjársvik, með því að hafa í heimildarleysi notað greiðslukort mannsins til að svíkja út vörur, eldsneyti og símakort.
Málið gegn fimmmenningunum, fjórum körlum og einni konu, verður þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra í næstu viku.