Ekki list heldur sóðaskapur

Bleikur Strokkur blasti við í morgun.
Bleikur Strokkur blasti við í morgun. Ljósmynd/ facebook.com/pages/Marco-Evaristti

„Ég harma það að gestur sem  kemur hingað til okkar ágæta lands láti sér detta í hug að framkvæma og þakka fyrir komu sína með þessum hætti, ég á fá orð til að lýsa vanþóknun minni á þessu,“ segir Garðar Eiríksson, talsmaður Landeigendafélags Geysis, um gjörning listamannsins Marco Evaristti í dag. Evaristti segist vera málari hvers strigi er náttúran sjálf en hann gerði Strokk bleikan við sólarupprás í dag með því að hella í hann fimm lítrum af rauðum ávaxtalit.

Frétt mbl.is hellti ávaxtalit í Strokk

Garðar kveðst hafa kært athæfið til lögreglu um leið og uppvíst var um það en Evaristti var einmitt á leið í yfirheyrslu hjá lögreglu þegar mbl.is talaði við hann fyrr í kvöld.

Garðar segist ekki vera refsigjarn maður en að hann telji að Evaristti eigi fyrir það fyrsta að biðjast afsökunar og átta sig á því hversu viðkvæm náttúra Íslands er. Hann segir enn vera leifar af litnum í kringum Strokk enda frost í jörðu.

„Þetta er bara hroki“

Í samtali við mbl.is sagðist Evaristti telja sig í fullum rétti til að „mála“ Strokk enda tilheyri náttúran okkur öllum, honum sjálfum þar með töldum. Garðar segir það mikinn misskilning enda brjóti það í bága við náttúruverndarlög auk þess sem landeigendur hafi rétt til að verja eignir sínar.

„Ef hann hefði spurt okkur hefðum við sagt honum hreint út að þetta væri óheimilt og að við myndum aldrei samþykkja svona gjörning,“ segir Garðar. „Þetta er bara hroki í þessum blessaða manni sem lýsir sinni forheimsku með þessu háttalagi og þeim svörum sem hann gefur ykkur.“

Evaristti segist hafa vottorð upp á að liturinn muni ekki skaða íslenska náttúru og hverfa af sjálfu sér en Garðar gefur lítið fyrir þær fullyrðingar. „Þetta er ekki í lagi. Þarna er viðkvæmt hverahrúður sem líkja má við æðakerfið í húðinni á okkur. Þetta smýgur allsstaðar inn og getur skilið eftir sig,“ segir hann og áréttar að honum þyki Evaristti hafa farið fram haf hroka og dónaskap.

 „Hvað er næst? Ætlar hann að lita Öxarárfoss bláan eða fara í Silfru og lita hana rauða eða græna? Ef við tökum ekki á þessu strax þá bjóðum við hættunni heim. Þetta er ekki list að mínu mati, bara sóðaskapur.“

Marco við Geysi í morgun.
Marco við Geysi í morgun. Ljósmynd/ facebook.com/pages/Marco-Evaristti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert