Marco Evaristti ber ábyrgðina á myndinni hér fyrir ofan sem sýnir Strokk gjósa bleikum lit. Sitt sýnist hverjum um uppátækiEvaristti og hefur hann þegar verið kærður til lögreglu af landeigendum við Geysi og er á leið til yfirheyrslu þegar mbl.is nær af honum tali.
Evaristti, sem kveðst hafa hlotið menntun sína í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn, segist gera eitt náttúrulistaverk annað hvert ár og að hann hafi valið Ísland þetta árið vegna þess hversu táknrænir hverirnir hér á landi eru fyrir náttúruna sem heild.
„Ég gerði það af því að ég er málari, landslagsmálari en ég nota ekki striga heldur mála ég beint á náttúruna,“ segir Evaristti um gjörninginn. Hann segir að Íslendingar ættu að vera stoltir þegar þeir líta verk hans augum enda hafi enginn séð íslenska náttúru í þessari mynd áður.
„Ég bið ekki um leyfi því ég trúi því ekki að náttúran tilheyri neinum. Ég er maður málfrelsis og mér finnst að náttúran tilheyri ekki neinum einum heldur öllum,“ segirEvaristti.
Aðspurður neitar hann því að hann hafi með gjörðum sínum einmitt tekið eignarvaldið í eigin hendur og eyðilagt náttúruverðmæti fyrir öðrum. Í gjörninginn notaði hann fimm lítra af rauðum ávaxtalit sem vanalega er notaður í matvöru og segist hann hafa vottorð frá eiturefnaeftirliti Danmerkur um að liturinn sé ekki skaðlegur náttúrunni og að hann hverfi af sjálfu sér.
„Ég var þarna klukkan korter yfir fjögur í morgun og beið eftir því að sólin kæmi upp. Ég framkvæmdi gjörninginn klukkan 05:25 að morgni og enginn var á staðnum í þá tvo tíma sem þetta tók.“
Í fyrra málaði Evaristti frosinn foss í Noregi með rauðum matarlit og mun hann þurfa að afplána 15 daga í fangelsi af þeim sökum. „Ég gæti borgað mjög lága sekt en ég trúi því að það sem ég gerði hafi átt rétt á sér og þess vegna tek ég refsingunni,“ segir Evaristti sem kveðst einnig tilbúinn að taka þeirri refsingu sem gjörningur hans við Strokk gæti haft í för með sér.
„Ég má skreyta móður náttúru. Ef ég elska konu gef ég henni demantshring, það er fallegt að skreyta fingur hennar því ég elska hana. Og þess vegna skreyti ég náttúruna, því ég elska hana,“ segir hann og heldur áfram.
„Rauði liturinn er tákn lífsins og ástarinnar. Hjartað er rautt og blóðið er rautt og það er þess vegna sem við erum til. Ástin er mjög mikilvæg og þetta er ástarjátning mín til náttúrunnar.“
Evaristti verður fimmtugur á morgun og segir hann gjörninginn á vissan hátt hafa verið gjöf til síns sjálfs.
„Þetta er fallegasta gjöf sem ég hefði getað gefið sjálfum mér. Ástarjátning mín til Íslands.“
The Rauður Thermal Project, 2015
Posted by Marco Evaristti on Friday, April 24, 2015