Hófust handa við dýpkun í morgun

Dísa vinnu að dýpkun. Mynd úr safni.
Dísa vinnu að dýpkun. Mynd úr safni. Sigurður Bogi Sævarsson

Hafist var handa við dýpkun í Landeyjahöfn í morgun og er sandi nú dælt úr höfninni svo önnur skip sem rista dýpra komist inn í höfnina. Fyrirtækið Björgun ehf. annast dýpkun hafnarinnar samkvæmt samningi við Vegagerðina. 

Að sögn Gunnlaugs Kristjánssonar, forstjóra Björgunar, er dæluskipið Dísa við störf. Stærri skip fyrirtækisins ná ekki inn í höfnina og því verður Dísa notuð til að gera fært fyrir þau. Dæluskipið Sóley vinnur í rifinu fyrir utan höfnina þar til aðstæður í sjálfri höfninni leyfa. 

Þetta er í fyrsta skipti á þessu ári sem færi gefst í nokkra daga til að dýpka höfnina. Samkvæmt veðurspá verður hægt að vinna í höfninni í lítilli ölduhæð fram í miðja næstu viku.

Gunnlaugur sagði nýlega í samtali við Morgunblaðið að menn hafi reynt að dæla sandi við Landeyjahöfn í miklum straumi og ölduhæð þar sem jafnvel brjóti á rifinu sem verið sé að dýpka. Áhafnirnar á sanddæluskipunum séu venjulegir íslenskir sjómenn en ekki hermenn. Það séu því takmörk fyrir því við hvaða aðstæður sé forsvaranlegt að láta þá vinna að dýpkun.

Frétt Morgunblaðsins: Landeyjahöfn ekki heilsárshöfn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert