Um helmingur látinna var í belti

Fimm banaslys hafa orðið í umferðinni á þessu ári. Í tveimur tilvikum var um að ræða farþega sem ekki voru í bílbelti og köstuðust þeir báðir út úr bílunum. Báðir farþegarnir voru erlendir ríkisborgarar, annar ferðamaður en hinn búsettur hér á landi.

Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu virðist þeim sem nota bílbelti hér á landi ekki hafa fækkað á síðustu árum, ef marka má viðhorfskönnun sem gerð var á aksturshegðun almennings. Af þeim 35 sem látið hafa lífið í bifreiðum síðustu fimm ár voru 19 í belti, eða um 54%.

Í umferðarkönnun sem gerð var árið 2013 kom í ljós að almenn beltanotkun á Íslandi virðist vera um 86% í innanbæjarakstri og styður viðhorfskönnunin það. Beltanotkun í utanbæjarakstri virðist vera talsvert meiri en innanbæjar, eða um 95%. Erfitt er að segja til um hvort algengara sé að erlendir ferðamenn eða erlendir ríkisborgarar noti ekki bílbelti.

Hringbraut, þjóðvegur 1 og Biskupstugnabraut

Fyrsta banaslysið á þessu ári varð við gatnamót Nauthólsvegar og Hringbrautar. Karlmaður á áttræðisaldri ók bifreið sinni upp á umferðareyju og staðnæmdist á kantsteini. Slysið varð sunnudaginn 15. febrúar en lést hann af sárum sínum 19. febrúar.

Frétt mbl.is: Banaslys varð við Hringbraut

Banaslys varð á þjóðvegi 1 í Eldhrauni 27. mars sl. þegar ökumaður jepplings missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum og valt. Farþeginn lenti undir bifreiðinni og lést samstundis. Um var að ræða unga konu frá Hong Kong. Í bílnum voru tveir erlendir ferðamenn; ökumaður og farþegi.

Frétt mbl.is: Hin látna var frá Hong Kong

Þriðja banaslysið varð á Biskupstungnabraut 9. apríl sl. Karlmaður frá Rúmeníu, sem búsettur var hér á landi, var farþegi í farangursrými bifreiðarinnar sem er skutbíll. Kastaðist hann út úr bílnum og stöðvaðist bifreiðin ofan á honum.

Frétt mbl.is: Karlmaðurinn var frá Rúmeníu

Fjórða banaslysið varð einnig á Biskupstungnabraut, 21. apríl. sl. Um var að ræða íslenskan karlmann á sjötugsaldri. Tveimur bílnum var ekið í gagnstæðar áttir og var karlmaðurinn einn í bifreið sinni þegar áreksturinn varð. Erlend hjón voru í hinum bílnum og sluppu þau lítið meidd. 

Frétt mbl.is: Nafn mannsins sem lést

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert