Eftir Baldur Arnarson
Bréfið sem Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands, formennskuríkis ESB, sendi til Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra hefur verið gert opinbert á vef ráðherraráðs Evrópusambandsins. Stækkunardeild ESB vill ekki tjá sig um málið.
Ráðherraráð ESB samþykkti fyrir viku að Lettar, sem formennskuríki ESB til 30. júní, myndu senda Gunnari Braga bréf sem svar við áréttingarbréfi íslenska utanríkisráðherrans til ESB hinn 12. mars síðastliðinn. Áréttingarbréfið má nálgast hér.
Bréfið frá Rinkevics er aftur á móti aðgengilegt hér.
Sem kunnugt er sendi Gunnar Bragi Evrópusambandinu bréf þar sem sagði að „afstaða ríkisstjórnarinnar [væri] að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki og ...að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að þessu."
Í bréfi Lettanna segir að tekið sé mið af afstöðu Íslands. Með hliðsjón af bréfinu verði tilteknar breytingar á verkferlum ráðherraráðs ESB teknar til greina.
Þegar málið var borið undir talsmenn stækkunardeildar ESB í síðustu viku vildu þeir ekki tjá sig um málið eða svara því hvort bréf Lettanna til Gunnars Braga feli í sér staðfestingu á því að aðildarumsóknin hafi verið afturkölluð.
Svar Lettanna virðist ekki afdráttarlaust í þessu efni og verður að koma í ljós hvaða breytingar verða gerðar á verkferlum sambandsins og þá hvernig þær breytingar hafa áhrif á stöðu Íslands sem umsóknarríkis, í kjölfar áréttingarbréfs Gunnar Braga.