Deild eigin viðskipta hjá Kaupþingi var ósjálfstæð þegar kom að viðskiptum með bréf í bankanum sjálfum og afskipti forstjóra bankans á Íslandi voru mikil af því hvernig viðskipti með bankann áttu sér stað. Yfirmaður deildarinnar hafði áhyggjur að með þessum afskiptum væri forstjórinn yfir því sem kallast Kínamúrar í starfsemi bankans.
Þrátt fyrir það sagði regluvörður Kaupþings að hann ætti ekki að hafa áhyggjur af því. Þetta kom fram í yfirheyrslu yfir Einari Pálma Sigmundssyni, fv. yfirmanni eigin viðskipta hjá bankanum og einum ákærða í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings.
Einar hóf störf hjá bankanum í apríl 2007, en ákærutímabil sérstaks saksóknar nær frá 1. nóvember það ár til falls bankans í október 2008. Sagði hann að samskipti sín við Ingólf Helgason, forstjóra bankans á Íslandi, hafi verið lítil til að byrja með, en með haustinu hafi þau aukist til muna.
Sagði Einar að upphaflega hafi hann talið að deildin væri sjálfstæð frá stjórnendum bankans, þar sem hún ætti í viðskiptum með bréf í bankanum sjálfum. Sagði hann í dag að fljótlega hefði komið í ljós að svo var ekki og að fyrirmæli, sem tengdust bréfum Kaupþings, hafi komið frá Ingólfi. Deildin var því ekki sjálfstæð í viðskiptum með bréf í Kaupþingi.
Þessu til staðfestingar hafi hann fengið það í gegn í desember 2007 að bréf í Kaupþingi væru á sérstakri bók innan deildarinnar þannig að það væri ekki tekið með þegar önnur viðskipti væru skoðuð.
Einar sagðist hafa haft áhyggjur af þessu og rætt það við aðra starfsmenn deildarinnar. Þá tók hann málið upp við regluvörð bankans sem hafi sagt honum að samkvæmt uppbyggingu fyrirtækisins ætti að haga málum svona. Sagðist Einar hafa haft áhyggjur af því að með þessu fyrirkomulagi væri Ingólfur í raun yfir svokölluðum Kínaveggjum milli deilda, en með þeim er ætlunin að loka á samskipti milli einstakra deilda sem ekki mega eiga í samskiptum.
Regluvörður svaraði Einari svo til að það væru ekki eitthvað sem hann ætti að hafa áhyggjur af, heldur væri það mál Ingólfs.