Sakar Hæstarétt um að spila með

Jón Ásgeir Jóhannesson við upphaf Baugsmálsins svonefnda árið 2007.
Jón Ásgeir Jóhannesson við upphaf Baugsmálsins svonefnda árið 2007. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Jón Ásgeir Jóhannesson, kaupsýslumaður, sakar Hæstarétt um að spila með í aðsendri grein sem hann ritar í Fréttablaðið í dag. Hann er ákærður í Aurum-málinu svokallaða en Hæstiréttur ómerkti í síðustu viku sýknudóm héraðsdóms og verður að taka það aftur fyrir í héraði.

Grein Jóns Ásgeirs  er birt á miðopnu Fréttablaðsins þar sem Guðmundur Andri Thorsson ritar venjulega pistil á mánudögum. Þar segir Jón Ásgeir að um hafi verið að ræða fullkomlega eðlileg viðskipti sem embætti sérstaks saksóknara reyni að klæða í glæpabúning.

Kann 100 manna herlið saksóknara ekki á Google?

„Sú skýring að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af bræðratengslum Ólafs og Sverris Ólafssona fyrir meðferð málsins stenst ekki. Hver trúir því að 100 manna herlið sérstaks saksóknara kunni ekki á Google þar sem tengslin liggja fyrir? Hvaða hugsanlega ástæðu hafði héraðsdómarinn til þess að ljúga til um samskipti sín við sérstakan saksóknara? Skiptir ekki máli að bréf liggur frammi í málinu frá meðdómaranum sem styður frásögn héraðsdómarans?“, skrifar Jón Ásgeir.

Tilgangurinn að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar

„Ég hef mátt verja hendur mínar sem sakborningur síðustu 13 ár. Eitt tekur við af öðru. Tilgangurinn virðist vera sá að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar. Gerðar hafa verið ótal húsleitir heima hjá mér og í fyrirtækjum sem tengjast mér. Rótað hefur verið í nærbuxnaskúffu minni, síminn minn hleraður og mikilvægum gögnum haldið undan í dómsmálum. Og ekki hefur eiginkona mín verið látin í friði. Hennar símar hafa verið hleraðir og húsleitir gerðar í hennar fyrirtækjum án þess að hún hafi nokkurn tíma á ævinni fengið stöðu sakbornings. Sök hennar virðist sú ein að hafa gifst röngum manni.

En niðurstaða miðvikudagsins er staðreynd. Enn á ný á að drösla mér niður í héraðsdóm, þar sem ákæruvaldið í landinu fær frjálsar hendur til að færa fram sakargiftir sínar á hendur mér. Ákæruvaldið hefur eytt milljörðum króna af fé íslenskra skattborgara síðustu 13 ár til þess eins að finna einhvern glæp, svo hægt sé að taka mig úr umferð. Ég er viss um að eftir 20 ár munum við fyrirlíta svona vinnubrögð. En af hverju gerist þetta aftur og aftur? Fyrir mér er svarið einfalt - kerfið sér jú um sína - og ver sig með kjafti og klóm.

Verst þykir mér samt að sjá að Hæstiréttur skuli spila með,“ skrifar Jón Ásgeir en eiginkona hans, sem hann vísar til, heitir Ingibjörg Pálmadóttir og er aðaleigandi og stjórnarformaður 365 miðla sem meðal annars gefa út Fréttablaðið.

Sýknu­dóm­ur yfir fyrr­ver­andi stjórn­end­um og eig­end­um Glitn­is í Aur­um-mál­inu svo­nefnda var ómerkt­ur í Hæsta­rétti þann 22. apríl. Féllst rétt­ur­inn á að meðdóm­andi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur hafi verið van­hæf­ur vegna tengsla við sak­born­ing í Al Thani-mál­inu. Málið verður því í aft­ur tekið fyr­ir í héraðsdómi. 

Jón Ásgeir Jó­hann­es­son, Lár­us Weld­ing, Bjarni Jó­hann­es­son og Magnús Arn­ar Arn­gríms­son voru á síðasta ári sýknaðir í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í mál­inu en sak­sókn­ari krafðist þess að Hæstirétt­ur ómerkti dóm­inn vegna van­hæf­is meðdóm­anda. Meðdóm­andinn, Sverr­ir Ólafs­son, er bróðir at­hafna­manns­ins Ólafs Ólafs­son­ar sem var sak­felld­ur í Al Thani-mál­inu í mars.

Í dómi Hæsta­rétt­ar kem­ur fram að um­mæli Sverr­is í fjöl­miðlum eft­ir að dóm­ur héraðsdóms féll gæfu til­efni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlut­dræg­ur í garð ákæru­valds­ins fyr­ir upp­kvaðningu héraðsdóms. Um­mæli Sverr­is voru eft­ir­far­andi:

„Ég trúi ekki í eina sek­úndu að sér­stak­ur sak­sókn­ari hafi ekki vitað af mín­um tengsl­um strax í upp­hafi. Ef hann vissi ekki af mín­um tengsl­um, þá ber það vott um af­skap­lega lé­leg og yf­ir­borðskennd vinnu­brögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæp­in og mér finnst þetta bera vott um ör­vænt­inga­full­ar og jafn­vel óheiðarleg­ar aðgerðir. Og hann gríp­ur til þeirra á erfiðum tím­um þegar að trú­verðug­leiki hans stofn­un­ar er eig­in­lega í mol­um.“

Í þessu ljósi taldi Hæstirétt­ur að ómerkja yrði dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur ásamt meðferð máls­ins frá upp­hafi aðalmeðferðar. Vísaði hann því aft­ur til Héraðsdóms Reykja­vík­ur til meðferðar.

Ákæra sér­staks sak­sókn­ara snýst um fé­lagið Aur­um Hold­ings Lim­ited sem áður hét Goldsmiths, Mapp­in & Wepp og WOS. Í mál­inu voru ákærðir þeir Lár­us, Jón Ásgeir, Magnús Arn­ar og Bjarni fyr­ir umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um vegna sex millj­arða króna lán­veit­ing­ar Glitn­is banka til fé­lags­ins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjár­magna að fullu kaup FS38 ehf. á 25,7% hlut Fons hf. í Aur­um Hold­ings Lim­ited.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert