Áætla lengri tíma á Ingólf

Ingólfur Helgason. Saksóknari spáir því að yfirheyrslur yfir honum muni …
Ingólfur Helgason. Saksóknari spáir því að yfirheyrslur yfir honum muni taka lengri tíma eftir svör annarra í málinu.

Miðað við framgang réttarhaldanna í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er af og frá að vitnaleiðslur yfir fv. forstjóra bankans, Ingólfi Helgasyni, taki einn og hálfan dag og líklegt að tveir dagar muni ekki duga. Þetta segir saksóknari í málinu, en upphaflega var gert ráð fyrir einum og hálfum degi í yfirheyrslur yfir Ingólfi, en hann er næsta vitni í málinu.

Síðustu tvo daga hefur ákærði, Einar Pálmi Sigmundson, fv. forstöðumaður eigin viðskipta, setið fyrir svörum og þar á undan tveir starfsmenn deildarinnar. Sagði saksóknari í dag að miðað við hvernig vitnaleiðslurnar hefðu þróast væri ljóst að yfirheyrslur yfir Ingólfi tækju lengri tíma en áætlað væri.

Með þessu gæti sá dagur, sem hafði áunnist í yfirheyrslum yfir fyrstu tveimur vitnum málsins, tapast, en upphaflega var áætlað að vitni yrðu spurð í 17 virka daga.

Ljóst er af orðum saksóknara að svör vitna hafi ýtt undir nánari spurningar til Ingólfs. Hafa þau á undanförnum dögum staðfest að viðskipti með bréf í Kaupþingi séu að undirlagi Ingólfs og að hann hafi fylgst náið með og skipt sér af þeim viðskiptum reglulega og með beinum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert