Gjaldfrjálst í göngin

Starfsmenn í gjaldskýli Hvalfjarðarganga leggja niður störf á fimmtudaginn og þann dag, frá hádegi til miðnættis, verður gjaldfrjálst að aka í gegnum göngin.

Starfsmenn í gjaldskýli Hvalfjarðarganga leggja niður störf frá kl. 12 á hádegi til miðnættis á fimmtudaginn kemur, 30. apríl, þegar kemur til boðaðrar vinnustöðvunar Starfsgreinasambandsins.

Áberandi skilti verða sett upp beggja vegna gjaldskýlis og allri umferð beint á ytri akreinar þar í báðar áttir.

Innri akreinar verða lokaðar, enda enginn þar við innheimtu.

Sjálfvirkt öryggis- og eftirlitskerfi ganganna verður „á vaktinni“ eins og áður. Öryggisstjóri Spalar getur því fylgst með umferð og tæknibúnaði ganganna á meðan vinnustöðvunin varir.

Gera má ráð fyrir mikilli umferð í göngunum síðdegis á fimmtudag, enda „löng helgi“ framundan.

Spölur beinir því sérstaklega til vegfarenda að sýna varúð og tillitssemi í umferðinni í göngunum sjálfum og á svæðinu við gjaldskýlið, segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert