Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Ragnheiður Ríkharðsdóttur, steig í ræðustól Alþingis í dag og fór hörðum orðum um tvo erlenda listamenn sem unnið hefðu að hennar sögn misnota íslenska náttúru. Vísaði hún þar annars vegar til chileska listamannsins Marco Evaristti, sem helti nýverið rauðum ávaxtalit í Strokk, og hins vegar þýska listamannsins Julius von Bismarck sem birti árið 2013 ljósmyndir frá Íslandi á sýningu í Berlín þar sem skrifað hafði verið í íslenska náttúru á Norðurlandi. Hann sagðist hins vegar ekki hafa tekið myndirnar.
„Það sem mér finnst vanta nú eru athugasemdir, eru hróp og köll frá Bandalagi íslenskra listamanna sem að fordæmi með einum eða öðrum hætti framgang af þessu tagi. Við erum gjörn á að fara og mótmæla því ef við sjálf gerum eitt eða annað. Hér koma þekktir listamenn utan úr heimi, leyfa sér slíka framgöngu að því er virðist án þess að þurfa að borga sektir eða tekið sé á málum þeirra með einum eða öðrum hætti því eingöngu heyrum við um gjörning þeirra í fréttum en ekkert síðar. Virðulegur forseti, mér finnst þetta ömurlegt.“
Óskaði Ragnheiður síðan eftir því að umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis tæki málið fyrir með það fyrir augum að kanna með hvaða hætti mætti bregðast við svona aðstæðum og komið í veg fyrir að erlendum listamönnum þætti slík framkoma við íslenska náttúru við hæfi.