Alltaf einhver á Kínamúrum

Ingólfur Helgason ásamt verjanda sínum í héraðsdómi.
Ingólfur Helgason ásamt verjanda sínum í héraðsdómi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ingólfur Helgason, fv. forstjóri Kaupþings á Íslandi, tók allar stærri ákvarðanir varðandi stefnu bankans í kaupum á eigin bréfum. Þá segist hann einnig hafa ákveðið hvað bankinn ætti mikið hverju sinni. Stjórn bankans fól honum að annast þessi verkefni þar sem meginstefnan var að fara ekki yfir 5% hlut, þótt það hafi ekki verið heilagt að hans sögn.

Yfirheyrslur hófust yfir Ingólfi fyrir héraðsdómi í dag, en saksóknari hefur spurt hann ítrekað út í aðkomu hans að ákvörðunum hjá eigin viðskiptum bankans, en sú deild sá um kaup bankans á eigin bréfum. Þá hefur hann einnig spurt Ingólf um aðkomu Sigurðar Einarssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar, fv. stjórnarformanns og forstjóra bankans, að slíkum viðskiptum.

Ræddi reglulega við Hreiðar og Sigurð um viðskiptin

Ingólfur segist hafa rætt við Hreiðar og Sigurð vegna kaupanna, en að samskiptin hafi verið reglulegri við Sigurð. Vitnað var í endurrit frá yfirheyrslu hjá lögreglu og sagði Ingólfur þá að samskiptin við Sigurð hafi líklega verið nær því að vera dagleg heldur en vikuleg. Þó hafi afskipti þeirra ekki verið af daglegum rekstri eða einstaka ákvörðun, heldur ræddu þeir heildarlínuna. Þá hafi þeir verið upplýstir reglulega um stöðu bréfanna.

Aðspurður hvort hann hafi leitað til þeirra vegna einstakra ákvarðana í þessu samhengi sagði Ingólfur svo ekki vera.

Ekki með puttana í einstökum tilboðum

Þótt Ingólfur hafi staðfest að hann hafi sjálfur tekið stærri ákvarðanir varðandi stefnuna í eigin kaupum, þá segist hann ekki hafa verið með puttana í einstökum tilboðum. Sagðist hann hafa átt spjall við starfsmenn deildarinnar og lagt almennar línur. Það hafi þó ekki alltaf verið svo, heldur hafi hann og starfsmenn deildarinnar jafnan skipst á skoðunum um hvað sé að gerast á mörkuðum. Sagðist hann stundum hafa komið með hugmyndir og stundum starfsmennirnir.

Gagnrýndi hann að símtölin sem spiluð hafa verið í dómsal sýni einhliða fram á að hann sé að gefa fyrirmæli. Sagði hann að miklu fleiri símtöl myndu sýna að svo hafi ekki verið. „Oft voru það þeir sem komu með hugmyndirnar og ég sagði bara já fín,“ sagði Ingólfur.

Ekki óeðlilegt að vera upp á Kínamúrunum

Fyrr í málinu hefur verið komið inn á Kínamúra sem voru innan bankans. Eru það veggir á milli deilda sem eiga að koma í veg fyrir samskipti milli deilda sem ekki eiga að hafa samskipti. Meðal annars kom fram að Ingólfur hafi verið yfir Kínamúrunum. Saksóknari spurði Ingólf hvort hann hafi ekki talið það óeðlilega stöðu. Sagði hann svo ekki vera. „Það er alltaf einhver upp á Kínamúrum,“ sagði Ingólfur og bætti við að hann hefði langa reynslu af þessum markaði og hafi kunnað að fara með trúnaðarupplýsingar.

Björn Þorvaldsson, saksóknari, ásamt samstarfsfólki sínu.
Björn Þorvaldsson, saksóknari, ásamt samstarfsfólki sínu. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert