„Ég þarf að leiðrétta þessa frétt“

Brynjar Níelsson, alþingismaður.
Brynjar Níelsson, alþingismaður. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það var engin ákvörðun tekin um það hvort slíkt skyldi gera enda eftir að athuga það í fyrsta lagi hvort málið heyri undir nefndina yfir höfuð og þó svo væri hvort ástæða væri til þess, með hliðsjón af sem liggur fyrir, að taka málið fyrir.“

Þetta sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varaformaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, í ræðustól þingsins í dag. Gerði hann þar athugasemd við frétt Ríkisútvarpsins í gær um að til stæði af hálfu nefndarinnar að afla gagna um tengsl Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra við fyrirtækið Orka Energy. Brynjar sagði að svo virtist sem fréttin væri komin frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, sem setið hafi fundinn sem áheyrnarfulltrúi.

„Ég þarf að leiðrétta þessa frétt, hún er bara einfaldlega röng,“ sagði Bryjnar og benti á að Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefði þegar leiðrétt fréttina í samtali við mbl.is í gær. Fram hefði komið tillaga frá minnihluta nefndarinnar um að taka málið fyrir. En engin ákvörðun hefði hins vegar verið tekin um að gera það.

„En eftir sem áður geta auðvitað þingmenn fjallað um málið hér í þingsal, en það er nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert