Starfsfólk Fiskistofu skorar á Sigurð Inga Jóhannsson sjávarútvegsráðherra að draga ákvörðun sína um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar til baka.
Í áskorun sem starfsmenn samþykktu á almennum fundi í dag segir:
- Starfsmönnum Fiskistofu verði þegar í stað gerð formlega grein fyrir stöðu málsins og hvers vænta megi um framhaldið.
- Vegna langvarandi óvissu hefur fjöldi starfsmanna nú þegar hrakist úr störfum sínum og ekki hefur verið hægt að ráða í þær stöður.
- Komið er að þolmörkum þess að stofnunin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum vegna þess ástands sem hefur verið viðvarandi undanfarin misseri.
- Nú þegar hefur orðið mikið þekkingarrof hjá stofnuninni og fyrirsjáanlegt er að það muni aukast ef fram fer sem horfir.
„Starfsmenn Fiskistofu skora á sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að draga ákvörðun um flutning Fiskistofu þegar til baka og forða þannig stofnuninni og starfsmönnum hennar frá enn frekari skaða en orðinn er,“ segir í tilkynningu.