Ljóst er að Herjólfur mun ekki sigla sína fyrstu ferð til Landeyjahafnar á þessu ári á morgun eins og vonir hafa verið uppi um, en höfnin er ekki enn komin í fulla dýpt. Þetta segir Sigurður Áss Grétarsson, framkvæmdastjóri siglingasviðs hjá Vegagerðinni.
Skipið sigldi síðast þangað 30. nóvember í vetur þannig að frátafirnar eru að nálgast fjóra mánuði. „Við vorum að vonast til þess að þetta næðist fyrir helgi en það lítur allt út fyrir að það verði ekki fyrr en um helgina. Við bindum vonir við að það gangi upp,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Dýpið í höfninni er þó orðið nægilega mikið fyrir farþegaferjuna Víking sem hefur siglt á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja alla vikuna.
Tvö dæluskip Björgunar ehf. vinna nú að dýpkun Landeyjahafnar og segir Gunnlaugur Kristjánsson, forstjóri Björgunar, dýpkunina ganga vel og veðurskilyrði vera góð. Hann segir alls um 100 þúsund rúmmetra af sandi hafa verið fjarlægða, þar af um 40.000 af rifinu sem nú er komið í fulla dýpt. Sigurður Áss segir mælingar Vegagerðarinnar hins vegar sýna fram á töluvert minna magn.
Sanddæluskipin Perla og Dísa vinna að dýpkun hafnarinnar, en byrjað var að dýpka höfnina á föstudaginn var. Tvöföld áhöfn er á hvoru skipi og er unnið að dýpkun allan sólarhringinn.
Sigurður Áss segir mælinguna þó flókna, og erfitt sé fyrir þá sem dæla að sjá nákvæmlega hvað þeir eru að gera. „Það er kannski búið að dýpka stærstan hluta á svæðinu en það verða alltaf hryggir og hólar á milli svo við þurfum í raun alltaf að dýpka meira en nauðsynlegt er. Stundum gengur það vel en stundum reynist það flókið og mér sýnist það vera þannig núna.“
Landeyjahöfn lokaðist fyrir Herjólf í lok nóvember vegna veðurs og sandburðar. Síðan hefur skipið siglt til Þorlákshafnar. Raunar hafa verið óvenjumiklar frátafir á siglingum ferjunnar þangað vegna óhagstæðs veðurs í vetur. Á síðasta vetri sigldi Herjólfur til Þorlákshafnar frá 26. nóvember til 1. apríl, eða rétt rúma fjóra mánuði.