Hafin er undirskriftasöfnun til að skora á forseta Íslands að vísa í þjóðaratkvæðagreiðslu hverjum þeim lögum sem Alþingi samþykkir þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til lengri tíma en eins árs meðan ekkert ákvæði er um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá.
Undirskriftasöfnunin fer fram á vefsíðunni thjodareign.is, en í fréttatilkynningu kemur fram að hún sé sett fram vegna stjórnarfrumvarps sem hefur verið lagt fram á Alþingi. Þar leggur Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, til að að úthlutun makrílkvóta til útgerðamanna til sex ára hið skemmsta og segir í fréttatilkynningunni að það feli í sér grundvallarbreytingu á tilhögun fiskveiðistjórnunarkerfisins.
„Verði frumvarpið að lögum er útgerðinni í fyrsta sinn veitt óafturkallanlegt forræði yfir aflaheimildum til lengri tíma en eins árs og Alþingi getur í reynd ekki afturkallað þá ráðstöfun. Um leið leggja stjórnvöld til að veiðigjöld verði ákveðin til þriggja ára sem aftur bindur hendur Alþingis fram yfir næstu kosningar,“ segir í tilkynningunni.
Nú þegar hafa um tvö þúsund manns skrifað undir, en söfnunin hófst í morgun. Meðal þeirra sem standa á bak við söfnunina eru Bolli Héðinsson, hagfræðingur, Guðrún Pétursdóttir, fv. Forsetaframbjóðandi, Jón Sigurðsson, fv. Formaður Framsóknarflokksins og Jón Steinsson, hagfræðingur.