ÍR-ingar hjuggu niður tugi birkitrjáa við Breiðholtsbraut í Reykjavík nýverið. Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri borgarinnar, segir í samtali við RÚV að þetta hafi verið gert án leyfis frá borginni. Hann gerir ráð fyrir að málið verði kært til lögreglu á morgun.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Birkitrjánum var plantað við Breiðholtsbraut fyrir tíu til fimmtán árum, eftir að brú var byggð yfir Reykjanesbrautina.
Bjarki Þór Sveinsson, formaður aðalstjórnar ÍR, staðfestir að menn á vegum félagsins hafi fellt trén. Ráðist hafi verið í verkið til að verja verðmæti félagsins, og á þar við auglýsingatekjur af skilti sem trén hafi skyggt á. Bjarki segir að félagið hafi haft samband við borgina sem hafi vísað á Vegagerðina sem hafi gefið leyfið.