Aðdáendur Stjörnustríðs bíða með öndina í hálsinum þessa dagana en í vetur er von á bæði nýrri kvikmynd og tölvuleik úr heiminum. Útgáfa Star Wars: Battlefront verður einn stærsti viðburður í tölvuleikjaiðnaðinum í ár en Sigurlína Valgerður Ingvarsdóttir er yfirframleiðandi við gerð hans.
Sigurlína starfar hjá DICE, sem er þróunarstúdíó í eigu tölvuleikjarisans EA. Stúdíóið er sænskt, staðsett í Stokkhólmi, og átti meðal annars veg og vanda af Battlefield-leikjunum sem Sigurlína segir að sé nú önnur stærsta menningarverðmætaútflutningsafurð Svía á eftir ABBA. Í kjölfar velgengni þeirra leikja keypti EA fyrirtækið.
Heima á Íslandi vann Sigurlína meðal annars fyrir CCP við verkefnastjórn. Fyrst þegar hún kom til Svíþjóðar vann hún fyrir Ubisoft í Malmö frá nóvember 2011 þangað til hún færði sig yfir til DICE árið 2012. Þar hefur hún verið yfirframleiðandi við Star Wars: Battlefront frá því að það verkefni hófst.
„Þróunarteymi leiksins er hérna og ég stýri í raun og veru því að búa til leikinn. Ég vinn síðan með öllu batteríinu inni í EA og mikið með Lucasfilm sem á hugverkið Star Wars. Þeir eru að hugsa um sitt vörumerki, gefa okkar ýmsar upplýsingar um hvernig Star Wars er að þróast og gæta þess að við séum að gera Star Wars á þann hátt sem þeir vilja,“ segir Sigurlína.
Star Wars: Battlefront er skotleikur sem hægt verður að spila bæði í 1. og 3. persónu. Í honum geta leikmennirnir meðal annars barist í lofti og á láði á kunnuglegum stöðum úr Stjörnustríðsmyndunum eins og Endor, þar sem Han Solo og Lilja prinsessa fóru fyrir vaskri sveit Ewoka, og Hoth, þar sem uppreisnarmennirnir földu sig eftir eyðingu Dauðastirnisins.
Leikurinn er sá fyrsti sem EA gerir eftir að fyrirtækið samdi við Disney, sem á réttinn á Stjörnustríðsheiminum, um að framleiða tölvuleiki sem byggist á þeim heimi. Óhætt er því að segja að mikil eftirvænting ríki fyrir honum, ekki síst þar sem um sama leyti kemur út ný kvikmynd, „Star Wars: The Force Awakens“.
Framleiðsla á stórleik eins og Star Wars: Battlefront er oft af sömu stærðargráðu og bandarískar Hollywood-bíómyndir að umfangi og kostnaði, að sögn Sigurlínu. Þegar Battlefront kemur út um miðjan nóvember mun vinnan við hann hafa staðið yfir í tæplega tvö og hálft ár. Það hlýtur því að vera draumur fyrir framleiðanda að fá að taka þátt í svo stóru verkefni eins og Star Wars: Battlefront er.
„Þetta er gríðarlega krefjandi og mjög áhugavert út frá mörgum mismunandi sjónarhornum. Það eitt og sér að vinna með þessu þróunarteymi sem ég hef hérna er ótrúlega skemmtilegt enda gríðarlega fært teymi og mjög mikið af hæfileikafólki. Margir sem ég vinn með eru með þeim bestu í heimi í því sem þeir eru að gera. Það er náttúrlega ótrúlega spennandi og skemmtilegt að upplifa það að vera í námunda við svona mikið hæfileikafólk,“ segir Sigurlína.
Ekki skemmir fyrir að sjálf hefur Sigurlína verið mikill aðdáandi Stjörnustríðs allt frá barnæsku.
„Það er hugmyndaheimur sem ég hef haft áhuga á síðan ég var barn. Það að fá að taka þátt í því að vinna í þessum heimi með fólkinu sem býr þennan heim til er algert ævintýri. Líka það að vinna í fyrirtæki eins og EA með fyrirtæki eins og Lucasfilm og sjá hvernig viðskiptaþróun á sér stað í fyrirtækjum af þessari stærðargráðu er ótrúlega lærdómsríkt, spennandi og mjög krefjandi,“ segir hún.
Eftirvæntingunni fylgir töluverð pressa en miklar vangaveltur og umræður hafa verið um leikinn hjá tölvuleikjaunnendum og Stjörnustríðsaðdáendum, ekki síst eftir að stikla úr leiknum var birt fyrr í þessum mánuði. Sitt sýnist hverjum, bæði um það sem boðið verður upp á í leiknum og um Stjörnustríðsheiminn sjálfan sem birtist í honum.
„Það er auðvitað gríðarlega mikil pressa. Hún kemur frá því að vinna í þessum geira, verkefnin eru það stór og kostnaðurinn það hár. Star Wars-aðdáendur eru líka sérstaklega kröfuharðir að mörgu leyti og þykir ótrúlega vænt um heiminn. Þeir gera kröfu um að honum sé vel sinnt og það sé gert af alúð og á fagmannlegan hátt. Það munum við að sjálfsögðu gera því við erum líka Star Wars-aðdáendur og langar til að gera okkar allra besta.
Stjörnustríðsheimurinn sé hins vegar það stór að ljóst sé að ekki sé hægt að gera öllum til hæfis.
„Við getum ekki búið til tölvuleik sem er með öllu Star Wars í. Það einfaldlega gengur ekki upp fyrir stórleik eins og okkar. Við náttúrlega gerum okkar besta með hugmyndina sem við erum að vinna með en auðvitað vitum við það að það er ekki hægt að gera öllum til hæfis,“ segir Sigurlína.
Ímynd tölvuleikjaspilara hefur verið afar karllæg en Sigurlína segir að það hafi verið að breytast. Raunveruleikinn sé sá að nokkuð jöfn skipting sé á milli karla og kvenna sem spila tölvuleiki og stærst vaxandi hópurinn sem spilar leiki séu konur yfir fertugu. Það sé meðal annars vegna þess að tölvuleikir séu komnir svo víða. Fyrir utan hefðbundnar leikjatölvur og borðtölvur sé hægt að spila þá í snjallsímum og spjaldtölvum.
Þegar kemur að stórleikjum, sem nefndir eru AAA-leikir í iðnaðinum, fyrir hefðbundnar leikjatölvur og sérstaklega skotleikjum eins og Battlefront, segir Sigurlína að fleiri karlar spili þá en konur. Sama hafi verið uppi á teningnum með EVE Online.
Við framleiðsluna séu hins vegar fleiri konur. Sjálf segist Sigurlína vinna mest og nánast með karlmönnum en hins vegar sé önnur íslensk kona nýbyrjuð sem markaðsstjóri við Battlefield-leikina hjá DICE og önnur íslensk kona sé byrjuð hjá King sem framleiðir Candy Crush.
„Þannig að íslenskar konur eru að gera það tiltölulega gott í tölvuleikjum í dag og eru aðeins að hasla sér völl. Bransinn hefur kannski verið frekar karllægur en það er hægt og rólega að breytast. Ég held að leikirnir sjálfir séu líka að breytast. Það er bara aukin umræða um hvernig konur birtast í tölvuleikjum sem hefur líka áhrif, “ segir hún.