Ísland vænlegur kostur fyrir Breta

Blaðamaður Independent bendir á Ísland sem vænlegan kost fyrir þá Breta sem íhuga að flytja úr landi eftir kosningarnar. Ísland sé hluti af evrópska efnahagssvæðinu, Björk sé íslensk, lítið um glæpi og hér sé að finna heitar náttúrulegar laugar.

Christopher Hooton, blaðamaður Independent á netinu, veltir fyrir sér kostum Breta að afloknum kosningum þegar ljóst sé að íhaldsflokkurinn verði við völd næstu fimm árin. Skoski  þjóðarflokkurinn hafi aflífað Verkamannaflokkinn og að Frjálslyndir demókratar skildir eftir með fleiri tár en þingmenn.

Hér eru möguleikar ykkar, ritar Hooton: Sættið ykkur við lýðræðið og haldið áfram að lifa lífinu, takið þátt og kjósið næst eða gangið alla leið og flytjið til heitara lands þar sem ekki er verið að reyna að einkavæða súrefnið eða seljendum parmesan osts eru ekki boðnar skattaívilnanir.

Hann vísar í vef ríkisstjórnarinnar þar sem fram kemur að flestir þeirra sem flytji frá Bretlandi geri það vegna vinnu annars staðar. Hooton segir að ekkert sé minnst á þá sem geti ekki hugsað sér að horfa á andlit George Osbornes fjármálaráðherra í 1825 daga til viðbótar.

Síðan koma ráðleggingar blaðamannsins um hvernig þeir sem ætla sér að flytja úr landi eigi að snúa sér. Bent er á að Bandaríkin vilji væntanlega ekki taka við viðkomandi en ef þú ert breskur ríkisborgari þá eigir þú rétt á að búa og vinna í öllum ríkjum evrópska efnahagssvæðisins, þar á meðal Íslandi. „Þar er glæpatíðni með þeim lægstu í heiminum, Björk og heitar laugar,“ segir í grein Independent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert