Rannsókn á lokastigi

mbl.is/Skapti

Rannsókn á flugslysinu sem varð á kappakstursbraut Bílaklúbbs Akureyrar í ágúst árið 2013 er á lokastigi og búist er við að niðurstöður liggi fyrir í sumar. Þetta staðfestir Þorkell Ágústsson hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa við Vikudag. „Drög að lokaskýrslu á eftir að fara í meðhöndlun hjá nefndinni og að því loknu verða þau send til allra aðila málsins. Ég geri fastlega ráð fyrir því að niðurstaðan verði ljós einhvern tíma í sumar, en nákvæmlega hvenær get ég ekki sagt til um,“ segir Þorkell í samtali við Vikudag.

Um var að ræða sjúkraflugvél frá flugfélaginu Mýflugi. Þrír voru í vélinni þegar hún brotlenti og létust tveir þeirra. Þriðji maðurinn hlaut minniháttar meiðsli.

Í október 2013 birti rannsóknarnefndin bráðabirgðaskýrslu um slysið. Þar kom fram að þegar flugvélin nálgaðist kappakstursbrautina hafi hún misst hæð og vinstri vængur hennar snert jörð við hægri hlið brautarinnar með þeim afleiðingum að hún brotlenti. Vélin hafði flutt sjúkling til Reykjavíkur frá Hornafirði þann 5. ágúst 2013 en þegar áhöfn sá til Akureyrarflugvallar og lauk blindflugi var óskað eftir því við flugturninn að fá að fljúga einn hring yfir bæinn sem fékkst samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert