Krefjast íbúakosningar um kísilmálverksmiðju

Á þessari mynd má sjá fjarlægðina milli verksmiðjunnar og íbúabyggðar …
Á þessari mynd má sjá fjarlægðina milli verksmiðjunnar og íbúabyggðar í Reykjanesbæ.

„Fyrir nokkrum árum hófst bygging álvers á svæðinu sem er reyndar stopp núna. Síðan er United Silicon að hefja byggingu á kísilmálmverksmiðju og komin með öll leyfi til þess. Svo stendur til að fara að byggja aðra kísilmálmverksmiðju á lóðinni við hliðina á. Þannig að einn góðan veðurdag gætum við verið komin með þrjár stórar verksmiðjur nánast við byggðina,“ segir Ellert Grétarsson, einn talsmanna hóps íbúa í Reykjanesbæ sem berst gegn frekari stóriðju í  Helguvík.

Áhyggjur bæjarbúa snúa fyrst og fremst að nálægð þessara stóriðjuverksmiðja við íbúahverfi bæjarins með tilliti til hugsanlegrar mengunar en aðeins er um 1,5 km frá þeim að nyrstu og vestustu hverfunum í Reykjanesbæ. Þá er hestafólk mjög uggandi en hesthúsahverfið á Mánagrund og beitarland þess lendir allt innan þynningarsvæðisins þar sem mengun má fara yfir viðmiðunarmörk.

Höfum reynslu frá Grundartanga, Hellisheiði og Reyðarfirði

Á þriðjudaginn hefur hópurinn boðað til kröfugöngu í þeim tilgangi að skora á bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ að efna til íbúakosningar um kísilmálmverksmiðju Thorsil í Helguvík. Gangan hefst klukkan 17:30 á þriðjudaginn við smábátahöfnina í Grófinni. Þaðan munu hestar og fólk ganga upp Hafnargötuna, inn að ráðhúsinu við Tjarnargötu, þar sem hópurinn mun afhenda oddvitum bæjarstjórnar formlega áskorun þessa efnis.

„Við höfum reynsluna frá Grundartanga, við höfum reynsluna frá Hellisheiði og Reyðarfirði,“ segir Ellert. „Það er alltaf talað um að allt eigi að vera innan marka en svo er það ekki þegar á reynir,“ segir hann og nefnir verksmiðjur á Hellisheiði og Grundartanga í því samhengi. Nýlega skilaði Skipulagsstofnun áliti sínu á umhverfismati vegna kísilmálmverksmiðju Thorsil og telur Ellert mörg vafaatriði í matinu.

Bæjarbúar gerðir að tilraunadýrum

„Það verður að segjast eins og er að það eru mjög mörg vafaatriði í umhverfismatsskýrslunni undir loftdreifingu og mengunarinnar. Síðan fær Skipulagsstofnun sérfræðiálit frá Háskóla Íslands. Þar er beinlínis talað um óvissu í útreikningum og með reynslunni frá Grundartanga er spurt hvort að ekki eigi að sannræna spánna með vöktun eftir að rekstur hefst. Það er semsagt verið að leggja það til að bæjarbúar verði gerðir að einhverskonar tilraunardýrum í lýðheilsutilraun,“ segir Ellert. „Það er þannig sem við lítum á það og við viljum bara að íbúarnir fái að njóta vafans. Þetta er það stórt mál að okkur finnst að það eigi ekki eingöngu að vera á forræði kjörinna bæjarfulltrúa að ákveða þetta.“

Ellert segir að skiptar skoðanir séu í bæjarfélaginu um þetta mál og að aldrei verði sátt um framkvæmdina nema með kosningu.

Hestamenn uggandi

Ellert segir að í hópnum sem berst gegn frekari stóriðju í Helguvík séu fjölmargir hestamenn. „Hestamennirnir af Mánagrund eru margir uggandi yfir þessu því hesthúsahverfið og beitilandið lendir allt innan þynningarsvæðis sem er ekkert annað en mengunarsvæði, þar sem mengun má vera yfir mörkum. Það er engin spurning að þetta mun hafa áhrif á  þá og hestana.“

Ellert er nokkuð bjartsýnn á að hlustað verði á íbúana og boðað til kosninga. „Í Hafnarfirði kaus fólk um stækkun álversins í Straumsvík og henni var hafnað. En burtséð frá því hver niðurstaðan verður er íbúakosning besta leiðin til þess að ná sátt um þessa ákvörðun.“

Facebooksíða hópsins.

Viðburðurinn á þriðjudaginn á Facebook.

Íbúafundur var haldinn á Mánagrund á dögunum.
Íbúafundur var haldinn á Mánagrund á dögunum. Ljósmynd/Ellert Grétarsson
Hér má sjá fjarlægðina frá íbúabyggð.
Hér má sjá fjarlægðina frá íbúabyggð. Af Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert