Ríkið leitar að veikum hlekkjum

mbl.is/Hjörtur

„Ríkið er auðvitað bara almennt í því að reyna að finna galla á þessum verkfallsboðunum okkar og leita þar að veikum hlekkjum. Mér finnst nú að þeir ættu frekar að nota kraftinn í að finna flöt á að semja við okkur.“

Þetta segir Páll Halldórsson, varaformaður BHM í samtali við mbl.is en í dag verður mál Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins og ríkisins flutt í Félagsdómi.

Þann 22. apríl fór fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna FHSS sem starfa hjá Fjársýslu ríkisins um boðun ótímabundins verkfalls frá og með 11. maí. Tæplega 80% greiddu atkvæði með verkfalli. Eins og fram kom á vef BHM og mbl.is í gær hefur ríkið nú stefnt Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins vegna þess. Þetta er því í annað sinn sem ríkið stefnir félaginu en áður hafði ríkið stefnt félaginu vegna tímabundins verkfalls sem lauk í gær. Félagsdómur sýknaði félagið af kæru ríkisins 6. apríl. 

„Það sem þeir gera athugasemd við sé boðunin sjálf og þetta lítur að þessum fyrri dómi sem féll í apríl. Þá var einróma niðurstaða félagsdóms sú að vinnuveitandi í skilningi laganna væru einstakir vinnustaðir,“ segir Páll. „Þegar atkvæðagreiðslan fór fram um þetta framlengda verkfall hjá sýslumanni var tilkynningunni komið til Fjársýslunnar, vegna þess í lögunum segir að það eigi að tilkynna ríkissáttasemjara og vinnuveitenda um boðað verkfall.“

Páll segir að þess vegna hafi verkfallsboðið ekki verið sent til Fjármálaráðuneytisins.

„Niðurstaða dómsins var sú að rjármálaráðuneytið er ekki vinnuveitandinn í þessu máli í skilningi laganna. Það er Fjársýslan. En núna segir ríkið að það hefði átt að tilkynna fjármálaráðuneytinu þetta líka.“

Páll segir að þarna sé verið að fást við atriði sem þegar er búið að leysa úr. „Það er ljóst mál að góður meirihluti tók þátt í þessari atkvæðagreiðslu og góður meirihluti samþykkti verkfall. Það virðist eins og þarna sé ríkið fyrst og fremst að leita að einhverjum formgöllum.“

Páll telur að ríkið muni ekki ná árangri í Félagsdómi í dag. „Viljinn liggur klár fyrir hjá félaginu en þeir reyna hinsvegar að fara ofan í formið og ég held að þeir muni ekki ná árangri eins og ég sé málið. En það er rétt að taka það fram að það er ekki hægt að spá fyrirfram um svona dóm.“

Aðspurður hvort að félagið sé bjartsýnt á að dómur Félagsdóms verði þeim í hag svarar Páll því játandi. „Já við erum bjartsýn á það.“

Páll Halldórsson, varaformaður BHM.
Páll Halldórsson, varaformaður BHM.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert