Búið er að koma flaki lítillar flugvélar, sem brotlenti í sjónum við Langatanga í Mosfellsbæ fyrr í dag, á þurrt land að sögn Þorkels Ágústssonar, hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa. Mbl.is náði tali af honum fyrir skömmu.
„Vettvangsrannsókn er í gangi núna en ég veit í sjálfu sér ekki alveg hvenær henni lýkur,“ segir Þorkell í samtali við mbl.is. Þegar blaðamaður náði af honum tali voru menn að koma brakinu úr sjónum og á þurrt land.
Til stendur að flytja flakið í skýli rannsóknarnefndar samgönguslysa á Reykjavíkurflugvelli til nánari skoðunar. Aðspurður segir Þorkell rannsakendur koma til með að setja sig í samband við hugsanleg vitni að atburðinum sem og flugmann vélarinnar í þeirri von að varpa ljósi á atburðarásina.
Á þessari stundu er ekki ljóst hversu langan tíma rannsóknin mun taka.
Fyrstu fréttir af atvikinu birtust laust fyrir klukkan þrjú í dag. Var þá meðal annars greint frá því að flugmaðurinn hefði verið einn um borð í vélinni. Er hann samkvæmt heimildum mbl.is rúmlega tvítugur að aldri og komst hann að sjálfsdáðum út úr brakinu og í land.
Sjónarvottur að slysinu sem mbl.is ræddi við fyrr í dag segir flugmanninn hafa verið slasaðan á hægri öxl og hendi auk þess sem hann er sagður hafa verið nokkuð blóðugur.
Var maðurinn fluttur með sjúkrabifreið á Landspítalann til aðhlynningar. Samkvæmt upplýsingum þaðan er maðurinn ekki talinn vera í lífshættu. Frekari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir.
Samkvæmt heimildum mbl.is er um að ræða flugvél af gerðinni Jodel D-117A og mun hún bera einkennisstafina TF-REX. Samkvæmt loftfaraskrá var vélin framleidd árið 1960.
Sem stendur er ekki fyllilega vitað hvað olli því að flugvélin hafnaði í sjónum en sjónarvottur segist hafa séð til vélarinnar þar sem hún flaug í um tíu metra hæð frá yfirborði sjávar. Segir hann flugvélina hafa tekið u-beygju yfir firðinum og við það fór annar vængur hennar lóðrétt upp í loftið. Er vélin þá sögð hafa misst afl, rekið vinstri vænginn í sjóinn og brotlent í kjölfarið.