Flugmaðurinn sem flaug vélinni sem hafnaði í sjónum við Langatanga í Mosfellsbæ fyrr í dag flaug vélinni aðeins um tíu metrum frá yfirborði sjávar.
Tók hann u-beygju í firðinum, setti vænginn lóðrétt upp í loftið og missti vélin við það afl. Vinstri vængurinn rakst í sjóinn og fór vélin á kaf.
Þetta segir Gylfi Geir Guðjónsson golfari sem staddur var Hlíðavelli í Mosfellsbæ þegar slysið varð.
Hann var sjónarvottur að slysinu og lýsir atburðarásinni á þennan hátt fyrir blaðamanni mbl.is. Gylfi Geir hringdi þegar í stað í Neyðarlínuna og hljóp því næst niður á Langatanga.
Frétt mbl.is: Flugvél í sjóinn við Mosfellsbæ
Gylfi Geir og félagar hans sáu að maðurinn, sem er rúmlega tvítugur, komst út úr vélinni að sjálfsdáðum en hann reyndi þó ekki strax að komast í land.
Töldu þeir þá hugsanlegt að fleiri hefðu verið um borð í vélinni og að hann væri að reyna að ná til þeirra. Erfitt reyndist að ná sambandi við flugmanninn þar sem vindurinn stóð upp í fangið á mönnunum á tanganum. Eftir skamma stund kom maðurinn þó að landi og óð hann sjóinn upp að mitti.
Þegar ungi maðurinn komst til mannanna bað hann strax um að fá að hringja í föður sinn.
„Hann hafði mestar áhyggjur af því að vélin væri í sjónum,“ segir Gylfi Geir og bætir við að maðurinn hafi verið mjög heppinn að vélin hafnaði ekki á tanganum sjálfum. Ekki munaði þó miklu, vélin hafnaði um þrjátíu metra frá Langatanga.
Maðurinn slasaðist á hægri öxl og á hendi og var nokkuð blóðugur. Honum var einnig verulega brugðið, að sögn Gylfa Geirs.