Kjaramálin brunnu á þingmönnum

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði í nógu að snúast á Alþingi …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafði í nógu að snúast á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Það hitnaði nokkuð í kolunum þegar óundirbúinn fyrirspurnatími fór fram á Alþingi í dag en mál málanna var sú staða sem upp er komin á íslenskum vinnumarkaði. Þingmenn stjórnarandstöðunnar skiptust á að koma upp í pontu og beindu einkum orðum sínum að fjármála- og efnahagsráðherra.

„Það er orðin mjög alvarleg staða á vinnumarkaði og áhyggjur okkar allra aukast dag frá degi af henni. Við heyrðum nú um helgina fyrst orðróm um lagasetningu á verkföll, sem er auðvitað fráleitt svar þegar vinnumarkaðurinn er allur í uppnámi,“ sagði Árni Páll Árnason við upphaf síns máls á Alþingi í dag.

Þörf á norrænni velferð

Benti þingmaðurinn jafnframt á að víðtæk óánægja væri uppi um skiptingu þjóðarauðsins og arðs af sameiginlegum auðlindum. „Við þurfum einfaldlega að tileinka okkur stjórnhætti sem gera okkur kleift að flytja inn norræna velferð, en ekki horfa á eftir fólki flytja út,“ sagði Árni Páll og bætti við að mál þetta væri ríkisstjórninni augljóslega mjög erfitt.

Sagði Árni Páll nú mikilvægt að horfa til einkum þriggja þátta í þessu samhengi, þ.e. húsnæðismál, skattaaðgerðir til að jafna kjör og þjóðarátak um samkeppnishæft atvinnulíf.

Ófremdarástand á vinnumarkaði

Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, gerði kjaramálin einnig að umræðuefni sínu.

„Ég er ósammála því að ríkisvaldið hafi ekki ríkum skyldum að gegna til að koma í veg fyrir það að svona ástand myndist á vinnumarkaði. Ég held að það sé áfellisdómur yfir ríkisstjórn þegar land, velmegunarsamfélag eins og við búum í, er komið á þann stað að það er nánast allsherjar verkfall í landinu. Ófremdarástand á vinnumarkaði,“ sagði Guðmundur og velti upp þeirri spurningu hvernig hægt væri að stjórna landinu í þann skurð sem landið er komið í.

Koma sundraðir að borði

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði ekki innistæðu vera fyrir þeim miklu átökum sem nú eiga sér stað.

„Það er heldur ekki innistæða fyrir kröfum um 50 til 100 prósenta launahækkanir, eins og einstaka aðilar koma með að borðinu að þessu sinni. Það þarf að ná einhverri ró og einhverri meiri skynsemi. Það þarf að ná meiri samstöðu um einhverjar heildar áherslur,“ sagði ráðherrann.

„Ef menn væru nú bara að tala um það að hækka lægstu laun, þá væri þetta nú allt miklu einfaldara. En það er bara ekki þannig. Menn koma algerlega sundraðir að borðinu með ýmsar kröfur. Sumir leggja áherslu á húsnæðismál [...], aðrir leggja áherslu á skattamál, þriðji [hópurinn] vill að menntun sé metin til launa, fjórði hópurinn vill að lágmarkslaun séu 300 [þúsund krónur] og fimmti vill að þau séu 400 [þúsund krónur]. Ég hef líka heyrt að lágmarkslaun eigi að vera 600 [þúsund krónur],“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert