Víki úr dómsal þegar vitni gefur skýrslu

Málin eru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.
Málin eru tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Kristján Markús Sívarsson og tveir nítján ára piltar sem ákærðir eru fyrir að misþyrma ungum manni, halda honum nauðugum og reyna að kúga úr honum fé þurfa að víkja úr dómsal á meðan hann ber vitni í málinu. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þess efnis. Hann hafnaði hins vegar kröfu um að sakborningum í öðru máli sem sameinað var þessu yrði gert að víkja á meðan annað vitni kemur fyrir dóminn.

Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn, sem er 18 ára gamall, sé hræddur við Kristján Markús og hina árásarmennina og þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun eftir árásina. Þremenningarnir eru ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar.

Þeir eru sakaðir um að slá manninn ítrekað, gefa honum rafstuð með rafstuðsbyssu, þar á meðal í kynfæri, þvinga hann til að sleikja egg og hráka upp af skítugu gólfi, stinga hann með óhreinni sprautunál sem þeir sögðu til þess að smita hann af lifrarbólgu C og neyða hann til að drekka smjörsýru.

Hæstiréttur staðfesti hins vegar einnig úrskurð héraðsdóms um að Kristján Markús og tveir aðrir sakborningar þyrftu ekki að víkja úr dómsal þegar fórnarlamb annarrar líkamsárásar sem ákært er fyrir ber vitni. Ástæðan er meðal annars sú að vottorð frá réttargæslumanni hafi borist of seint.

Fyrri frétt mbl.is: Ákært fyrir gróf ofbeldisbrot

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert