Ríkið sýknað af 300 milljóna kröfu

mbl.is/Jim Smart

Íslenska ríkið var í gær sýknað af kröfum Haga, Innes og Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Félögin þrjú stefndu íslenska ríkinu fyrir gjaldtöku í formi 59 prósenta tolls á kartöflusnakk en félögin töldu skammtheimtuna ekki samræmast kröfu um málefnalegan grundvöll skammtheimtu hins opinbera. Fóru þau fram á að ríkið greiddi þeim rúmlega 300 milljónir króna.

Félögin sögðu hvergi að finna skýringar eða réttlætingu á gífurlega hárri tollprósentu og töldu ekki óvarlegt að ætla að ríkið teldi álagninguna réttlætast af verndarstefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði. Í tilviki kartöflusnakks sé hins vegar mjög lítil eða engin slík framleiðsla fyrir hendi og því ekkert sem þarfnast verndar, sagið í málatilbúningi félaganna.

Íslenska ríkið hafnaði því að tollurinn hafi verið ákveðinn með verndarstefnu gagnvart innlendum landbúnaði að leiðarljósi og sagði dómurinn að sönnunarbyrðin lægi hjá félögunum þremur fyrir því að gjaldtaka 59 prósent tolls uppfyllti ekki kröfur um málefnalegan grundvöll skattheimtu.

Dómurinn taldi að félögin þrjú hefðu ekki fært sönnur fyrir því að gjaldtaka 59 prósenta verðtolls hafi brotið í bága við meðalhófsreglu og var ríkið sýknað af öllum kröfum stefnenda og félögunum gert að greiða 750 þúsund krónur hvert í málskostnað.

Uppfært klukkan 14:39

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður sem fór með málið fyrir hönd Haga, segir að afstaða héraðsdóms verði vissulega virt en að hann og umbjóðandi hans séu ekki sammála niðurstöðunni né rökstuðningi dómsins.

„Eins og málið horfir við umbjóðanda mínum er hér brotið gegn jafnræðisreglu með óhóflegum og ómálefnalegum matarskatti. Það er lagður mjög hár tollur á innflutt kartöflusnakk en á sama tíma sleppa samkeppnisvörur eins og til dæmis kornsnakk. Þetta er gert til þess eins að vernda tiltekna innlenda framleiðendur fyrir samkeppni,“ segir hann og bætir við að innflutningsfyrirtæki verði einfaldlega að leita allra leiða til að hnekkja þessari mjög svo ósanngjörnu og ómálefnalegu gjaldtöku, því hún bitnar fyrst og fremst á neytendum.

„Umbjóðendur okkar munu því ekki una þessari niðurstöðu héraðsdóms og verður málinu því áfrýjað til Hæstaréttar. ” segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert