Ekki hefur verið ákveðið hvort að þingsályktunartillaga um að seinka klukkunni um eina klukkustund verði afgreitt úr velferðarnefnd á þessu þingi, að sögn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, formanns nefndarinnar. Síðustu gestirnir komu á fund nefndarinnar vegna málsins í morgun.
Ellefu þingmenn úr öllum flokkum lögðu í vetur fram þingsályktunartillögu þess efnis að klukkunni yrði seinkað um eina klukkustund fyrir bjartari morgna á veturna. Eftir fyrstu umræðu á þingi var tillögunni vísað til velferðarnefndar sem hefur haft hana til umfjöllunar síðan.
Sigríður Ingibjörg segir að síðustu gestirnir hafi komið á fund nefndarinnar vegna málsins í morgun en það voru fulltrúar frá Hinu íslenska svefnrannsóknafélagi. Félagið hefur hvatt til þess að klukkunni verði breytt þar sem það hefði veruleg áhrif á heilsu þjóðirnar að mati þess. Áður hafa fulltrúar frá embætti landlæknis, Geðhjálp, Golfsambandi Íslands, Icelandair og stjörnufræðingarnir Þorsteinn Sæmundsson og Gunnlaugur Björnsson komið fyrir nefndina.
„Ég veit ekki hver afdrif málsins verða. Það gafst ekki tóm til að ræða það. Við eigum eftir að meta hvort að það sé vilji til þess að afgreiða það út úr nefndinni,“ segir Sigríður Ingibjörg.
Sjálf segist hún taka mikið mark á ábendingum svefnrannsóknafélagsins um leið og hún hafi einnig áhyggjur af því að í landi með eins miklar öfgar í myrkri og birtu eins og Íslandi að ekki sé bætt við myrkrið síðdegis.
„Það eru þessir tveir pólar sem vegast á,“ segir Sigríður Ingibjörg.
Verði tillagan ekki afgreidd á þessu þingi, sem skammt er eftir af, verður það aftur komið á byrjunarreit. Hefðu flutningsmenn tillögunnar hug á því þyrftu þeir að leggja hana fram að nýju á næsta þingi.