Starfsmenn Fiskistofu fá val um flutning

Höfuðstöðvar Fiskistofu í Hafnarfirði.
Höfuðstöðvar Fiskistofu í Hafnarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Starfsmenn Fiskistofu munu hafa val um að starfa áfram á höfuðborgarsvæðinu eða á Akureyri. Aðeins fiskistofustjóri sjálfur mun þurfa að flytja með stofnuninni til Akureyrar. Þetta kemur fram í bréfi frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til stofnunarinnar um breytta tilhögun flutnings hennar.

Ráðherrann boðaði fiskistofustjóra og fulltrúa starfsmanna á sinn fund í dag þar sem breytingarnar voru kynntar þeim. Í bréfi sem hann ritar um breytingar kemur fram að ef frumvarp þess efnis verður samþykkt verði höfuðstöðvar Fiskistofu vissulega fluttar til Akureyrar eins og til stóð en starfsmennirnir muni hins vegar hafa val um hvort þeir starfi áfram á höfuðborgarsvæðinu eða í nýju höfuðstöðvunum fyrir norðan.

Fiskistofustjóri mun flytjast til höfuðstöðvanna þar og vinna með starfsmönnum sem eru þar fyrir, öðrum sem óska þess að flytja til Akureyrar og nýjum starfsmönnum sem stendur til að ráða. Þar sem hluti af rekstrarsviði Fiskistofu, þ.e. tölvuþjónusta, þjónar einnig Hafrannsóknastofnun sé gert ráð fyrir að sú eining verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Aðrir starfsmenn hafa val um hvar þeir starfa en Fiskistofustjóri ákveður fyrirkomulag og tilhögun starfsstöðva þeirra starfsmanna sem síðar verða ráðnir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert