Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á úrskurð yfirfasteignamatsnefndar að fasteignamatsvirði Austurbakka 2 sé rúmir 17 milljarðar króna en Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ehf. fór fram á að úrskurðurinn yrði ógiltur.
Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir að brugðist verði við niðurstöðu héraðsdóms en ekki liggi fyrir á þessari stundu með hvaða hætti það verður.
Árið 1999 kynnti borgarstjóri Reykjavíkur og ríkisstjórn Íslands þá fyrirætlun að byggja tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur. Í mars 2009 eignaðist Austurhöfn-TR allt hlutafé í Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi ehf. og öðrum félögum sem tengdust rekstri Hörpu, ásamt byggingarrétti á öllum reitum lóðarinnar við Austurbakka 2. Húsið Harpa, sem er tæplega 29 þúsund flatarmálsmetrar en tæplega 245 þúsund rúmmetrar, var formlega opnað 20. ágúst 2011.
Metið á rúma 17 milljarða en PwC og Capacent töldu virðið tæpir 7 milljarðar
Þann 24. maí 2011 tilkynnti Þjóðskrá Íslands Hörpu ehf. niðurstöðu fasteignamats Hörpu. Heildarfasteignamat var ákvarðað 17.014.750.000 krónur, þar af lóðamat 529.900.000 krónur.
Töldu eigendur Hörpu matið allt of hátt og fékk PricewaterhouseCoopers til að afla upplýsinga sem varpað gætu ljósi á hvað mætti telja raunhæft og eðlilegt fasteignamat Hörpu.
Niðurstaða PwC var að raunhæft fasteignamat væri mun lægra og var því krafist úrskurðar um fasteignamatið. Töldu eigendur Hörpu að eðlilegt mat væri skv. niðurstöðu PwC væri 6,8 milljarðar króna. Þeir leituðu einnig til Capacent sem taldi að fasteignamat Hörpu ætti að nema á bilinu 6,5 til 6,7 milljarðar króna. Við mat fyrirtækjanna var beitt svokallaðri frjálsri aðferð fjárstreymis.
Yfirfasteignamatsnefndin staðfesti hins vegar ákvörðun Þjóðskrár varðandi fasteignmatsvirði Hörpu fyrir árið 2011 yrði rúmir 17 milljarðar króna, þar af lóðamat tæpar 530 milljónir króna.
Í niðurstöðu dómsins kemur fram að ekki sé fallist á neina af meginkröfum Hörpu varðandi málið, meðal annars um brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Né heldur að byggingarkostnaður Hörpu hafi verið ofáætlaður þannig að það geti valdið einhverri skekkju á niðurstöðunni sem máli skiptir.
Kostnaður fór úr 12 milljörðum í 28 milljarða á nokkrum árum
Í dómnum kemur fram að stofnkostnaður byggingar og hönnunar Hörpu hafi í upphafi átt að vera rúmlega 12 milljarðar króna, samkvæmt tilboði Portus-hópsins (sem var í eigu Landsbankans og Nýsis). Vegna efnahagshrunsins haustið 2008 og rekstrarörðugleika þáverandi eigenda Hörpu hafi byggingarkostnaðurinn hins vegar orðið töluvert hærri en búist var við eða um 28 milljarðar króna. Kostnað sem nam 5,4 milljörðum króna megi á beinan hátt rekja til stórfelldra verðalagshækkana og gjaldþrots fyrrum eigenda Hörpu.
Glerhjúpur á 3,3 milljarða og Ólafur fær greidd höfundarlaun á hverju ári
Eigendur Hörpu ehf. töldu að glerhjúpurinn utan um húsið eigi að standa alfarið fyrir utan fasteignamatið enda sé hann listaverk og sé meðhöndlaður sem slíkur. Höfundur hans, Ólafur Elíasson, eigi höfundarrétt að verkinu og Harpa þurfi að greiða honum höfundarlaun árlega. Listaverkið, sem hafi kostað 3,3 milljarða, sé því ekki hluti fasteignarinnar í neinum skilningi heldur sjálfstætt listaverk.
Á þetta fellst héraðsdómur ekki og segir að þegar litið sé til þess að glerhjúpurinn er hið eiginlega ytra byrgði hússins alls og hluti af burðarvirki þess, þar sem þakið hvílir á útveggjunum, er ekki hægt að fallast á að kostnaðurinn við gerð hans eigi að vera undanskilinn byggingarkostnaði hússins.
Í niðurstöðu dómara segir að þar sem dómurinn hafi hafnað öllum þeim málsástæðum sem Harpa færði fyrir því að ógilda ætti úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 30. maí 2102 verði kröfu Hörpu hafnað.
Í skýrslu forstjóra Hörpu fyrir árið 2013 kemur fram að rekstur Hörpu sé sem fyrr erfiður og á enn langt í land með að verða sjálfbær.
„Erfiðasta hindrunin þar eru fasteignagjöld sem lögð eru á húsið, sem í fyrra námu tæpum 354 milljónum króna. Sátt náðist um það í stjórn Hörpu og meðal eigenda að láta reyna á það fyrir dómstólum hvort þessi álagning standist, en óvíst er hvenær það mál verður til lykta leitt. Meðan niðurstaða liggur ekki fyrir verður erfitt að segja hvenær markmið Hörpu um sjálfbærni í rekstri náist,“ segir í skýrslu Halldórs fyrir árið 2013.
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. er í eigu íslenska ríkisins (54%) og Reykjavíkurborgar (46%).