Íslenskur sauðburður vekur athygli

RÚV sýndi frá sauðburði í einn sólarhring og fangaði þannig …
RÚV sýndi frá sauðburði í einn sólarhring og fangaði þannig athygli breska ríkissjónvarpsins, BBC. mbl.is/Rax

Bein útsending Ríkissjónvarpsins frá sauðburði í heilan sólarhring frá fjárhúsunum á Syðri-Hofdölum í Skagafirði vakti athygli erlendis en breska ríkissjónvarpið greindi í dag frá útsendingunni.

Þar segir að Ísland sé gengið til liðs við tískusveifluna „rólegt sjónvarp“ með því að sýna frá sauðburðinum og segir jafnframt að RÚV hafi haldið þeim sem ekki voru staddir fyrir framan sjónvarpstækin upplýstum um gang mála með því að setja inn myndir á Twitter-síðu RÚV.

Í frétt BBC er sagt að hugmyndin að „beint frá burði“ sé sótt til „rólegra sjónvarpsútsendinga“ í Noregi en þar í landi hafa slíkar sjónvarpsútsendingar náð nokkrum vinsældum. Til að mynda sýndi norska ríkissjónvarpið, NRK, frá eldivið að brenna í 12 klukkustundir og árið 2011 var sýnt frá farþegaferju sigla meðfram ströndum Noregs í 130 klukkustundir.

Fyrr á árinu tilkynnti BBC fjögur um að sjónvarpsstöðin ætlaði að hoppa um borð í lest „rólegs sjónvarps“ og hefur stöðin síðan m.a. sýnt frá tveggja klukkustunda ferðalagi um skipaskurð ásamt því að sýna frá þriggja klukkustunda ferðalagi um listasafnið National Gallery í Lundúnum.

Frétt mbl.is: Spýtan brotnaði undan Gísla

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert