„Það er verið að veðja hvenær ég brýt þessa spýtu sem ég sit á,“ sagði fréttamaðurinn Gísli Einarsson í beinni útsendingu úr fjárhúsinu á Syrði Hofdölum í nótt. Hann hafði varla sleppt setningunni er spýtan brotnaði og hann datt á rassinn - í beinni.
Bein útsending RÚV frá sauðburði í íslenskri sveit hefur vakið mikla athygli. Gísli hefur staðið vaktina með bændunum. Hið skondna atvik átti sér stað í nótt er hann settist niður með bændunum á Syðri Hofdölum, þeim Ingibjörgu Klöru Helgadóttur og Atla Má Traustasyni.
Í kjölfar atviksins fengu svo viðstaddir hláturskast - skiljanlega. „Það getur allt gerst í beinni útsendingu,“ sagði Gísli er hann náði andanum á milli hlátursrokanna. „Sem betur fer sluppu blessuð lömbin.“
Beinu útsendingunni frá burðinum lýkur á hádegi. Þangað til má fylgjast með henni hér.
Sjá frétt RÚV og myndskeið af uppákomunni í nótt.