Ekki lokað þrátt fyrir hótanir

Moskan - Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja. Verk eftir …
Moskan - Fyrsta moskan í sögulega hluta Feneyja. Verk eftir Cristoph Büchel Ljósmynd Bjarni Grímsson

Þrátt fyrir hótanir um að loka ætti íslenska skálanum í Feneyjum hefur enn ekkert orðið úr þeim hótunum og þangað streyma inn gestir alls staðar úr heiminum. Framlag Íslands, „Moskan, fyrsta moskan í Feneyjum“ hefur vakið mikla athygli og gagnrýnin bæði verið jákvæð og neikvæð.

Björg Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, segir að svo lengi sem borgaryfirvöld láta ekki loka sýningunni þá muni hún halda áfram en Feneyjatvíæringurinn, hin viðamikla myndlistarhátíð í Feneyjum, stendur fram í nóvember. Hún vonast til þess að svo verði en framlag Íslands hefur orðið bitbein í pólitískri umræðu í borginni enda stutt í kosningar. Eins hefur fjölmiðlaumræðan haft sitt að segja og auðvitað sýnist hverjum sitt um verkið þar sem listamaðurinn Christoph Büchel breytti gamalli kirkju í mosku.

Á að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu

Árið 1973 lýsti patríarkinn af Feneyjum því yfir að kirkjunni, sem sýningin er í, skyldi lokað sem vettvangi fyrir helgihald á vegum kirkjunnar og að eftir þann tíma nætti nota húsnæði hennar í öðrum, „veraldlegum“ tilgangi.

„Vegna fregna í fjölmiðlum um framlag Íslands til 56. Feneyjatvíæringsins í myndlist, sem nú stendur yfir, vilja mennta- og menningarmálaráðuneyti  og Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri um verkefnið „Moskan, fyrsta moskan í Feneyjum“:

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar leigði húsnæði undir verkefnið, Santa Maria della Misericordia kirkjuna, af núverandi eiganda kirkjunnar. Það var grundvallaratriði þess leigusamnings sem gerður var að kirkjan hafi verið afhelguð og því hæf til annarra nota. Kynningarmiðstöðin hefur undir höndum skjal þar sem saga kirkjunnar Santa Maria della Misericordia er rakin í smáatriðum frá upphafi til dagsins í dag. Þar kemur m.a. fram að árið 1973 lýsti patríarkinn af Feneyjum, Albino Luciani (sem síðar varð páfi og tók sér nafnið Jóhannes Páll I), því yfir að kirkjunni skyldi lokað sem vettvangi fyrir helgihald á vegum kirkjunnar og að eftir þann tíma nætti nota húsnæði hennar í öðrum, veraldlegum tilgangi.

Að lokum er rétt að benda á, eins og fram kom í fréttatilkynningu þegar  sýningarverkefnið „Moskan, fyrsta moskan í Feneyjum“ var fyrst kynnt 30. apríl sl., að tilgangur þess er að draga athygli að stofnanavæddum aðskilnaði og fordómum í samfélaginu ásamt þeim deilum sem spretta af stefnumörkun stjórnvalda um fólksflutninga sem eru þungamiðjan í þjóð- og trúarlegum ágreiningi víða um heim. Var þess vænst að þetta verkefni gæti mætt kalli nútímans um samtal og samskipti á milli menningarheima sem mikil þörf er á um þessi mál og orðið jákvætt innlegg í umræðu um slík mál á heimsvísu.

Við opnun sýningarinnar 8. apríl sl. töluðu fulltrúar þriggja trúarbragða, þ.e. imam múslima í Feneyjum, rabbíni gyðinga í borginni og kaþólskur prestur um mikilvægi slíkrar umræðu og það tækifæri sem væri fælist í verkefninu til að efla samræðu fólks af ólíkum bakgrunni um sambúð ólíkra trúarbragða í framtíðinni.

Það er enn von aðstandenda þessa verkefnis að það megi verða vettvangur slíkrar umræðu,“ segir í tilkynningu sem mennta- og menningarmálaráðuneytið sendi frá sér í gær.

Bæklingur um Ísland hluti af verkinu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert