„Ég tek ofan fyrir Skagfirðingum og íbúum allra þeirra landsbyggða sem hafa kjark til að berjast fyrir hagsmunum sínum,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyja, á vefsíðu sinni þar sem hann gagnrýnir Birgittu Jónsdóttur, kaftein Pírata, harðlega fyrir að segja Skagafjörð vera Sikiley Íslands. Ummælin lét hún falla á Facebook-síðu sinni fyrir helgi.
„Píratar eru um margt merkilegur flokkur. Velgengni þeirra í skoðanakönnunum hefur verið með miklum ágætum. Flestum er ljóst að óánægja með „hefðbundin“ stjórnmál liggur til grundvallar þessari velgengni. Þar til viðbótar á almenningur auðvelt með að samsama sig við látlausa og málefnalega afstöðu Helga Hrafns Gunnarssonar þingmanns flokksins. Fleira kemur til og heilt yfir hafa Píratar haldið vel á þeim spilum sem þeir hafa haft á sínum höndum,“ segir Elliði.
Hins vegar sé „ömurlegt að verða vitni að því þegar þingmaður Pírata, - Birgitta Jónsdóttir - telur það viðeigandi að veitast að heilu byggðalagi og draga upp mynd af því sem þekktu fyrir spillingu og rotin viðhorf.“ Sumir þingmenn skilji ekki að allir landsmenn vilji hag síns byggðalags sem mestan og fyllist ótta þegar þeir geti ekki séð fyrir sér trygga framtíð á heimahögum. Þeir telja það ekki til marks um frekju að vilja að fá að búa börnum sínum framtíð í nágreni æskuslóða.
„Sumir þingmenn draga fram neikvæðar eigindir og ata þeim óhikað á íbúa heils landshluta sem ekkert hafa til sakar unnið annað en að sýna samstöðu um hagsmuni síns byggðalags. Þingmenn sem láta baráttu gegn ákveðnum fyrirtækjum eða atvinnugreinum smitast yfir á íbúa heils sveitarfélags. Leggja þá á höggstokk heiftugrar hugmyndafræði og sveifla öxinni. Þingmenn sem óhikað láta tilganginn helga meðalið. Slíkur þingmaður er Birgitta Jónsdóttir þingkona Pírata.“
Frétt mbl.is: Segir Skagafjörð „Sikiley Íslands“