Fjármálaráðuneytið óskaði eftir því að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, drægi frumvarp sitt um stofnframlög vegna stuðnings við félagslegt húsnæði til baka. Þetta upplýsti hún í hádegisfréttum Bylgjunnar. Hún sagðist hafa hafnað því að afturkalla frumvarpið.
Nokkrir fjölmiðlar hafa greint frá því á undanförnum dögum að frumvarpið hafi verið dregið til baka, eins og fjallað var um á mbl.is í gær. Eygló sagði það ekki rétt.
„Í umfjöllun um húsnæðismál hef ég ítrekað vísað til þess að stjórnvöld verði að standa fyrir aðgerðum sem orðið geta til þess að fjölga valkostum á húsnæðismarkaði, meðal annars með því að styðja við uppbyggingu á virkum leigumarkaði. Ég hef einnig sagt að slíkar aðgerðir gætu orðið til þess að greiða fyrir kjarasamningum og þau mál hafa verið til skoðunar að undanförnu,“ var haft eftir henni í tilkynningu í gær.
Ekki sé hægt að segja fyrir hvort breytingar verði gerðar á frumvarpinu en það muni skýrast á næstunni. Reynslan kenni að framfarir í félagslega húsnæðiskerfinu verði ekki án aðkomu verkalýðshreyfingarinnar og fyrir baráttu hennar.