„Ef þetta verður stöðugt vandamál, þá verður það skoðað hvort það þurfi að gera reglurnar enn þá strangari,“ segir Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is og vísar til reglna, sem samþykktar hafa verið, um að hópferðabílar með yfir tuttugu farþega megi ekki aka um íbúðargötur í miðbænum.
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag sótti rúta erlenda ferðamenn í Þingholtsstræti í gær. Tónlistarmaðurinn Halldór Bragason sagði farir sínar, og annarra íbúa í Þingholtunum, ekki sléttar vegna umferðar rúta um hverfið, enda göturnar þröngar. Hann birti myndband af rútunni sem bakkaði í Þingholtsstræti frá Bankastræti og alla leið suður á Laufásveg vegna þess að hún gat hvergi beygt í þröngum götunum.
Kallaði Halldór myndbandið „rútuþjáningar íbúa í 101“.
Frétt mbl.is: Reyndi að taka af honum símann
Umhverfis- og skipulagsráð samþykkti í fyrra að mælast til þess að hópferðabílar af þessari stærð keyrðu ekki um götur í Þingholtunum og miðbænum. Gert var sérstakt kort þar sem skilgreint er nákvæmlega hvaða götur þeir megi keyra.
„Það var sérstaklega ankananlegt að sjá þetta myndband, því það er einmitt sleppistæði fyrir farþega tvö hundruð metrum neðar, í Lækjargötunni. En um er að ræða reglur sem byggjast á samkomulagi við ferðaþjónustuaðila og ég reikna með að viðkomandi bílstjóri hafi ekki vitað af þeim.
Ég hef áður sagt að það hlýtur að vera mikið kappsmál fyrir ferðaþjónustuaðila að vera ekki að valda óþarfa pirringi og álagi meðal íbúa. Það er mjög vont fyrir þessa aðila sjálfa. Það er brýnt að allir bilstjórar séu með þessar reglur á hreinu,” segir Hjálmar.
Rútufyrirtækin séu sammála stefnu borgarinnar í þessum málum. „Fyrirtækin óskuðu beinlínis eftir því að það yrðu settar skýrar reglur. Þetta eru bara einhver ótrúleg mistök sem þessi bílstjóri gerir. Það er bara þannig.“
Hann nefnir einnig að mikillar óánægju hafi gætt meðal kaupmanna og rekstraraðila á Laugaveginum vegna umferðar rúta þar. „Skipulagsyfirvöld hafa rætt það að rétt sé að setja reglur um ákveðinn hámarksöxulþunga á Laugaveginum sem myndi gera það óheimilt að keyra rútur, eða bíla sem eru kannski meira en 3,5 tonn að þyngd, yfir hádaginn niður Laugaveginn.
Það myndi minnka álag af vöruflutningabifreiðum, en ekki síst af farþegaflutningabifreiðum. Umferð minni rúta niður Laugaveginn hefur nefnilega valdið heilmiklu ónæði, sérstaklega þegar þær stoppa á miðri götu eða keyra upp á gangstéttir. Það er ekki alveg nógu gott,“ segir Hjálmar.