Ég hljóp eins hratt og ég gat. Það var rigning og það var kalt. Á endanum náði hann í mig og lamdi mig. Á þessa leið hóf Selma Björk Hermannsdóttir, ung stúlka sem lögð var í einelti í mörg ár, erindi sitt á TEDxReykjavík 2015 á laugardaginn.
Selma fæddist með skarð í vör og hefur farið nokkrar aðgerðir, þá fyrstu þegar hún var aðeins viku gömul. Skólafélagar hennar í grunnskóla sögðu margir hverjir að hún væri ljót og beindust ljót orð þeirra að vör hennar. Árið 2013 skrifaði Selma pistil um eineltið sem vakti mikla athygli.
Það var ekki aðeins Selma sem fékk að kenna á því, heldur var einnig ráðist á yngri bróður hennar þegar hann var á leið heim úr skólanum aðeins 10 ára gamall. Selma greindi frá því að 15 ára unglingur hefði áreitt hann og sagt að hann ætti ljóta systur. Varð bróðir Selmu mjög reiður og reyndi að ráðast á eldri drenginn sem henti honum þá í jörðina.
Í erindi sínu fjallaði Selma um eineltið og hvernig hún tókst á við það. Í sjöunda bekk í grunnskóla sögðu bekkjarfélagar hennar að hún væri ljót en hún svaraði: Ó, finnst þér ég vera ljót? Mér finnst þú einmitt vera svo sætur. Ég gerði þetta alltaf þegar einhver var vondur mig, sagði Selma og bætti við að pabbi hennar, sem einnig var með erindi á laugardaginn, hefði sagt henni að mæta hatri með ást.
Ég trúi því að þeir sem leggja í einelti séu að draga athyglina frá því sem angrar þá. Mér hefði alveg verið strítt jafn mikið ef ég hefði mætt með hatt í skólann á hverjum degi. Ef ég hefði trúað öllu því sem þau sögðu, orðið reið og svarað með reiði, held ég að ég væri ekki hér í dag, sagði Selma.
Hún sagðist aftur á móti aldrei hafa gefist upp, aldrei reynt að fremja sjálfsvíg, aldrei byrjað að reykja til að falla í hópinn og staðið upp fyrir sjálfri sér. „Ég trúi að það sé þess virði,“ sagði Selma. Hún bætti aftur á móti við: „Ef þið haldið að ég sé úr steini, þá er það ekki rétt,“ sagði Selma og tók fram að hún hefði oft brotnað niður.
Selma segist hafa fyrirgefið gerendum eineltisins í dag. „Ekki af því að þau áttu það skilið, heldur af því að ég á það skilið,“ sagði hún.
Selma á eftir að fara í eina aðgerð vegna skarðsins sem hún fæddist með í vörinni. Þá getur hún einnig farið í lýtaaðgerð til að fjarlægja örið sem situr eftir. Það ætlar hún aftur á móti ekki að gera. „Þetta er örið mitt, þetta hefur gert mig að þeirri manneskju sem er ég er í dag og ég er þakklát fyrir að hafa fæðst svona,“ sagði hún.
Í lokin sagði Selma að við ákvæðum vissulega ekki hvað kæmi fyrir okkur á leið okkar í gegnum lífið en við gætum aftur á móti ákveðið hvernig við tækjumst á við það. „Verum sterk, verum besti vinur okkar. Aldrei láta neinn segja þér hvað þér finnst um sjálfan þig,“ sagði Selma og uppskar mikið lófatak gesta.
Frétt mbl.is: Afar mikilvægt að öskra ekki
Frétt mbl.is: Fann enn lykt af rotnandi líkum
Frétt mbl.is: Birgitta: Ég var ljóti andarunginn