Takmarki umferðina í miðbænum

Eftir því sem ferðamönnum og hótelum fjölgar í miðborginni því …
Eftir því sem ferðamönnum og hótelum fjölgar í miðborginni því þyngri verður umferð hópferðabíla um hana með tilheyrandi ónæði fyrir íbúa. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar segir að takmarka þurfi umferð rúta um miðborgina frekar vegna ónæðis af henni. Félagsmenn í Samtökum ferðaþjónustunnar þekkja vel til tilmæla Reykjavíkurborgar um umferð hópferðabíla í miðbænum, að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra samtakanna. 

Sagt var frá því um helgina að stærri rúta ók Þingholtsstræti til að sækja erlenda ferðamenn og útistöðum íbúa þar við lögreglu. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar samþykkti tilmæli um að hópferðabílar af þessari stærð ækju ekki um Þingholtin og miðbæinn í fyrra. Gert var sérstakt kort um hvaða götur þeir mættu keyra.

Ómar Smári Ármansson, yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að umferð stórra rúta sé aðeins bönnuð í einni götu í miðborginni, Þórsgötu. Tilmælin til ferðaþjónustufyrirtækjanna dugi ekki til og hann telur að banna þyrfti þessa umferð á tilteknu svæði ef menn vilji draga úr þessum miklu óþægindum sem af umferðinni hljótist. Reykjavíkurborg geti gert það með samþykki lögreglustjóra.

„Að öllu óbreyttu þá á umferðin eftir að aukast frekar en hitt. Okkar reynsla er sú að það verði að hafa ákveðinn hátt á og hann verði að vera skýr. Þá er hægt að framfylgja því,“ segir Ómar Smári.

Þurfa að finna framtíðarlausnir

Helga, framkvæmdastjóri SAF, segist ekki þekkja til atviksins sem átti sér stað um helgina en félagsmenn í SAF þekki tilmælin borgarinnar vel. Samtökin hafi sent kort með upplýsingum til þeirra og fyrirtækin sem tilheyri samtökunum hafi fylgt þessum tilmælum eins og hægt er.

„Við höfum fullan skilning á því stórar rútur séu ekki að keyra um í þessum íbúðarhverfum þar sem er þröngt og engar aðstæður fyrir þessa bíla,“ segir Helga.

Það sé hins vegar ljóst að eftir því sem hótelum fjölgi í miðborginni þurfi farþegar að komast leiðar sinnar til og frá hótelum. Því hafi SAF átt frumkvæði að samtali við borgina um lausnir og málamiðlanir sem geti verið ásættanlegar fyrir ferðaþjónustuna, gesti og íbúa. Ferðaþjónustufyrirtæki hafi skilning á því ef takmarka þarf umferð um viss svæði. Það sé hins vegar ekki nóg eitt og sér heldur þurfi að finna framtíðarlausnir sem meðal annars felist í að fjölga safnstæðum fyrir stærri rútur.

„Þá þarf að koma upp aðstöðu fyrir utan þessi svæði þar sem rútur geti lagt og beðið, hvort sem fólk kemur gangandi eða með minni bílum. Vinna við úrlausn þessara mála er í gangi og við vonumst auðvitað til þess að ásættanleg lausn fáist fyrir alla aðila fljótt og örugglega,“ segir Helga.

Ómar Smári segir að lögreglan vilji að komið verði upp söfnunarsvæði og menn sammælist um að stærri rúturnar fari ekki inn í miðborgina heldur láti minni bíla sjá um flutninginn. Það fyrirkomulag sé komið til framkvæmdar að hluta með söfnunarsvæði við BSÍ.

Fyrri fréttir mbl.is:

„Ótrúleg mistök“ rútubílstjórans

Reyndi að taka af honum símann

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri SAF.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert