Blekkingar með spiluð símtöl

Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnarskrárvarin réttindi ákærðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings voru virt að vettugi með því að takmarka aðgang ákærðu og verjanda þeirra að gögnum í málinu. Þar hafi þeir aðeins haft aðgang að þeim gögnum sem ákæruvaldið valdi meðan mikilvægt sé að aðilar beggja hliða málsins hafi jafnan aðgang að gögnunum. Þetta kom fram í máli Harðar Felix Harðarsonar, verjanda Hreiðars Más Sigurðssonar, fv. forstjóra Kaupþings, í málflutningi hans í dag.

Ekki fullkominn heimur

Sagði hann að ákæruvaldið hafi haft aðganga að tugmilljónum tölvupósta og símtölum sem öflugur tölvubúnaður hafi verið notaður til að flokka gögnin. Það hafi svo verið þau gögn sem voru síuð út sem ákærðu hafi getað fengið aðgang að, en ekki fjölmörg önnur sem hafi mögulega komið með aðra sýn en ákæruvaldið bregður upp.

Hörður sagði að umfang málsins og gagna málsins ekki eiga að skipta neinu í þessu samhengi og að rannsakendur verði að tryggja ákærðu sama aðgang að gögnum málsins. Benti hann til túlkunar tveggja danskra prófessora sem hafi svarað því afdráttarlaust að hér væri brotið á ákvæðum um jafnræði.  Þá efaðist hann um að saksóknari hafi gætt jafnræðis í málinu, eins og ákæruvaldinu ber skylda til. „Jafnvel í fullkomnum heimi, þá á ákærður maður samt rétt til aðgangs að gögnum í sínu máli,“ sagði hann og bætti við að hér væri umhverfið síður en svo fullkomið. Benti hann meðal annars til þess að embætti sérstaks saksóknara hafi verið sett á fót því ákveðna markmiði að finna ábyrgðamenn fyrir bankahruninu.

Símtölin spiluð til að vekja upp hughrif

Hann sagði einnig meðferð ákæruvaldsins með hlustuð símtöl væri sér kapítuli út af fyrir sig, en eins og áður hefur komið fram voru allar beiðnir sérstaks saksóknara fyrir símahlerunum samþykktar. Benti Hörður á að með hlerunum væri grafið gegn friðhelgi einkalífs fólks og þá sé þetta háa hlutfall ekki til þess fallið að telja að meðalhófs hafi verið gætt.

Hörður var einnig harðorður út í framkvæmd spilana á símtölum fyrir réttinum og sagði ætlunina hafa verið að vekja upp ákveðin hughrif sem hafi verið fengin með að brjóta á rétti sakbornings til að tjá sig ekki. Benti hann á að réttur manna til að tjá sig ekki væri mjög sterkur og að það væri í höndum ákæruvaldsins að sanna sekt, nema einstaklingur ákveður sjálfur að sanna sekt sína. Hörður sagði þennan rétt ná til allra ummæla sakborning eftir að hann hefði fengið stöðu sakbornings. Því væru upptökur sem hefðu verið hleraðar árið 2010, eftir yfirheyrslur og kringum útgáfa rannsóknarskýrslu Alþingis mjög ámælisverðar.

Segir saksóknara beita blekkingum

Sagði hann saksóknara kjósa að beita blekkingum og gróflega hafi verið grafið undan þessum réttindum ákærðu þegar þeim var sleppt aftur eftir gæsluvarðhald og yfirheyrslur og sett á farbann, en á sama tíma hafi sími þeirra verið hleraður. Á þessum tíma hafi aðeins verið um að ræða hughrif ákærðu undir mikilli pressu, en ekki eiginleg gögn málsins. Benti hann t.d. á að símtal Bjarka Diego, eins ákærða, við fv. yfirlögfræðing bankans, á þessum tíma sýni svo ekki sé um villst að sakborningar séu að ræða málið út frá forsendum sem ekki standist skoðun og saksóknari noti það svo til að fá hughrif dómsstólsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert