Hollensk stúlka í farbann

Hæstiréttur staðfesti í gær farbannsúrskurð héraðsdóms yfir hollenskri stúlku sem er grunuð um að hafa reynt að smygla um tuttugu kílóum af fíkniefnum til landsins.

Er henni bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 10. júní næstkomandi.

Fram kemur í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness að stúlkan, sem er sautján ára gömul, hafi ekki vitað af fíkniefnunum í farangri sínum. Hún segir að móðir sín hafi boðið sér til Íslands í þeim tilgangi að skoða landið. Móðirin hafi séð um að pakka farangri þeirra.

Mæðgurnar komu til landsins á föstudaginn langa með flugi frá Amsterdam og áttu pantað flugfar til baka á mánudagsmorgun. Tollverðir fundu amfetamín, kókaín og MDMA í ferðatöskum þeirra. Mæðgurnar voru í kjölfarið handteknar og fluttar í Kópavogsfangelsi en stúlkan er nú í umsjá barnaverndaryfirvalda.

Í greinargerð lögreglu segir að rannsókn málsins standi yfir og að henni miði henni vel hvað varði hlutdeild kærðu. Enn séu þó nokkur atriði sem eftir standi í rannsókninni og er lögregla bjartsýn á að rannsókn á hlutdeild kærðu ljúki á næstu vikum.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að stúlkan hafi engin tengsl við Ísland svo vitað sé. Megi ætla að hún muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér undan málssókn með öðrum hætti fari hún frjáls ferða sinna.

Að mati lögreglunnar er ekki tilefni, meðal annars með vísan til hagsmuna hennar sem barns, til þess að vista hana í fangelsi innan um fullorðna einstaklinga á meðan henni sé gert að sæta frelsistakmörkunum vegna rannsóknarmálsins. Af þessum sökum telur lögreglan að hagsmunum hennar sé best borgið með því að henni verði gert að sæta áfram farbanni á meðan á rannsókn málsins standi.

Dómur Hæstaréttar

Frétt mbl.is: Mægður reyndar að smygla fíkniefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert