Hugarfar landsliðsmanna þrautkannað

Einu af mörkum knattspyrnulandsliðs karla fagnað.
Einu af mörkum knattspyrnulandsliðs karla fagnað. mbl.is/Kristinn

Hugsar afreksíþróttafólk öðruvísi en annað fólk? Hvað er það sem liggur að baki áhugahvöt afreksfólks?

Það voru spurningar á borð við þessar sem fengu Unni Helgadóttur, meistaranema í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands, til að rýna vandlega í hugsunarhátt leikmanna íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.

Meistararitgerð Unnar í ber yfirskriftina Hugarfar atvinnumannsins: Rannsókn um áhugahvöt, stjórnunarstíl og umgjörð íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Unnur hefur fylgst með landsliðinu í gegnum tíðina og eins og fleiri veitt því athygli að liðið hefur náð góðum árangri samhliða miklum breytingum sem tengjast liðsheild og stjórnun liðsins. Sú rannsókn sem hún gerði og lesa má um í ritgerðinni varpar ljósi á hvernig hugsunarhátturinn er í raun lykilatriðið að baki árangri liðsins.

„Ég tók viðtöl við átta leikmenn og annan þjálfara liðsins, Heimi Hallgrímsson. Viðtölin voru tekin frá síðasta sumri og fram á haust og þar leita ég eftir hvernig hugarfar þeirra er og gat greint niðurstöðurnar í þrjá hluta,“ segir Unnur.

Uppgjöf er ekki til

Fyrst ber þar að nefna hugarfarið sem Unnur segir mjög sterkt og keppnisskapið mjög mikið. „Þeir gefast aldrei upp. Uppgjöf er ekki til í þeirra orðabók.“

Annað sem vegur þungt er sú gagnrýni sem einkennir veruleika atvinnufólks í íþróttum. „Frá því þeir eru litlir eru foreldrarnir að benda þeim á hvernig eigi að gera hlutina og seinna þegar þeir eru farnir að spila í stórum deildum eru leikirnir í beinni útsendingu í sjónvarpinu þannig að gagnrýnisraddirnar eru sterkar og miklar.“

Þriðja greining niðurstaðnanna lýtur að ytri þáttum, hvernig þeir hafa áhrif á árangur. „Liðsheildin er mjög sterk hjá þeim. Það er samhugur og samheldni í liðinu og stefnan er mjög skýr, allt skipulag í kringum liðið er mjög gott og samskiptin þeirra í milli einkennast af virðingu, trú og trausti sem skiptir einna mestu máli til að hægt sé að ná árangri.“

Í ritgerðinni kemur fram að heimfæra megi vinnuumhverfi afreksíþróttafólks upp á venjulegt vinnuumhverfi. „Hvort sem þú ert stjórnandi eða starfsmaður þarftu að hafa gott skipulag í kringum þig. Þú þarft að hafa gott vinnuumhverfi og krefjandi verkefni sem henta þekkingu þinni og reynslu. Þetta eru atriði sem atvinnumenn þurfa líka að hafa. Þeir þurfa að hafa skipulag á sinni vinnu og eru til dæmis með nuddara og sjúkraþjálfara í liðinu og að þessu leytinu til er mjög auðvelt að heimfæra yfir á þetta vinnuumhverfi því þetta er bara vinnan þeirra,“ segir Unnur og bætir því við að líta megi á þjálfarann sem stjórnanda og liðsmenn sem starfsmenn.

Sem rannsakandi hafði Unnur, eðli málsins samkvæmt, ekki myndað sér fyrirfram ákveðnar skoðanir á rannsóknarefninu. Eftir sem áður var nokkuð sem kom henni á óvart og má þar til dæmis nefna viðhorf leikmanna til mistaka. „Þeir líta algjörlega framhjá mistökum og eins með uppgjöfina. Þeir bara gefast ekki upp,“ segir Unnur.

Aðspurð segist hún vel geta hugsað sér að gera sambærilega rannsókn síðarmeir á hugarfari leikmanna handboltalandsliðins, enda áhugavert með eindæmum að þrautkanna það.

Einkenni góðs þjálfara

Unnur Helgadóttir spurði Heimi Hallgrímsson hvað einkenndi góðan þjálfara. Hann svaraði því til að engin ein uppskrift væri í raun til en nokkur atriði skiptu lykilmáli. „Að vera þú sjálfur og koma fram við leikmenn af virðingu og þá hlýtur þú virðingu á móti.“ Það kom skýrt fram hjá honum að virðing, trú og traustværu mikilvægir þættir ef þjálfari ætlaði að ná árangri með liðinu. „Þannig að þjálfarinn hafi trú á því að liðið geti unnið hvaða leik sem er og treysti því til að fara út á völlinn og gera sitt besta.“
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Eva Björk
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert