Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi í Reykjavík, flytur tillögu í dag fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um breytt greiðslufyrirkomulag vegna Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi greiðir Reykjavíkurborg 18% af rekstrarkostnaði Sinfóníunnar. Telur Júlís eðlilegt að önnur sveitarfélög taki þátt í þessum kostnaði og leggur til að Reykjavíkurborg greiði 58% af núverandi framlagi en önnur sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins 42%.
Bendir Júlíus á að 42% íbúa höfuðborgarsvæðisins búi í öðrum sveitarfélögum en Reykjavík en Sinfóníuhljómsveitin sé þjóðarhljómsveit. Borgarstjórn muni fela borgarstjóra að taka þetta mál upp við ríkisstjórn Íslands og óska eftir þátttöku annarra sveitarfélaga í rekstrarkostnaði Sinfóníunnar, en slíka heimild megi finna í lögum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.